Tónlistarnám á framhaldsskólastigi

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 14:24:33 (778)

2003-10-17 14:24:33# 130. lþ. 14.95 fundur 95#B tónlistarnám á framhaldsskólastigi# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[14:24]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er rétt að svara því sem hv. fyrirspyrjandi lagði fram þegar hún spurði hvort hugmyndin væri að gera tónlistarskóla í Reykjavík að menntaskóla fyrir tónlist. Það eru ekki hugmyndir uppi um það. Það er hins vegar margs kyns misskilningur hér í gangi.

Í fyrsta lagi er ekki hægt að halda því fram að þegar tónlistarnám hófst í Listaháskóla Íslands hafi námið verið gengisfellt. Hvernig dettur mönnum í hug að segja þetta? (KolH: Kennaranám, kennaranám) Það er fjarri lagi. Það er að sjálfsögðu búið að flytja þetta nám upp á háskólastig og það er mikil framför. Það er staðið mjög vel að náminu í Listaháskóla Íslands að því er varðar tónlist, afskaplega vel. (KolH: Þetta er rangtúlkun á orðum mínum, ráðherra).

Það er reiknað með því að ofan á grunnnámið verði byggt kennaranám. Það er verið að vinna að því að skoða uppbyggingu námsins í samræmi við þá þróun sem er í Evrópu, þar sem stefnt er að því að að kennarar í tónlist ljúki meistaraprófi.

Að sjálfsögðu er ekki á nokkurn hátt hægt að lýsa málinu eins og þar sé um gengisfellingu að ræða. Ég er undrandi yfir því að heyra slíkt hér. (KolH: Þetta er útúrsnúningur.)

Í öðru lagi, ef ég fæ frið, hæstv. forseti, til að koma máli mínu frá mér, vil ég geta þess að hér er farið svolítið losaralega með hugtök. Það er enginn ágreiningur í nefndinni sem ljúka mun störfum fyrir áramót um að þar verði ekki fjallað um samskipti sveitarfélaganna varðandi málefni nemenda sem stunda tónlistarnám fjarri lögheimili sínu. Það er vandamál sveitarfélaganna og þau eiga að leysa það. Hins vegar er góður vilji fyrir því að fjalla þar um tónlistarnám innan framhaldsskólanna. Það mál verður örugglega leyst og verður auðvelt að leysa. En þar verður ekki, og það er samkomulag um það í nefndinni, fjallað um málin á þeim grundvelli sem hér hefur verið rætt um og nánast alla tíð.

Mikilvægt er að menn átti sig á því að það eru til mismunandi námsstig í tónlistarkennslunni. Það er til grunnnám, miðnám og framhaldsnám. Það endurspeglar ekki skipulag skólans. Þannig geta nemendur grunnskólans verið í framhaldsnámi og nemendur í framhaldsskólunum verið í grunnnámi.