Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 15:24:34 (789)

2003-10-17 15:24:34# 130. lþ. 14.12 fundur 30. mál: #A sveitarstjórnarlög# (lágmarksstærð sveitarfélags) frv., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[15:24]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta eru allt saman gamalkunnug rök í þessari umræðu og svo sem að mörgu leyti ágætlega gild. Við höfum verið að prófa okkur áfram með þetta í langan tíma og umræðan leitt okkur þangað sem við erum í dag. Og hvar erum við? Þar sem mikill vilji er hjá öllum, eða stórum meiri hluta sveitarstjórnarmanna, frammámanna sveitarstjórna í landinu, fyrir því að gera mikið átak í sameiningu sveitarfélaga. Þar eru menn ekki að tala um að búa til 400--500 manna samfélög, heldur miklu stærri.

Þetta er í raun og veru niðurstaða margra ára umræðu um þessi málefni. Það sem verið er að tala um í þessu samhengi er að við sitjum ekki uppi með svæði og örlítil sveitarfélög inni á milli stærri sveitarfélaga sem bókstaflega munu koma í veg fyrir að það verði hægt að ganga eins langt og annars væri í því að flytja verkefni til sveitarfélaganna og efla þau.

Það eru ýmis vandamál sem fylgja því að stækka sveitarfélög, m.a. gæti fólk kannski misst málsvarsmöguleika sem það hefur ef það er í einstöku litlu sveitarfélagi. Á þessu þurfa menn auðvitað að taka. Það eru svipuð vandamál og eru í hverfum t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Við höfum séð fólk rísa upp í einstökum hverfum til þess að berjast fyrir tilteknum málefnum. Slíka hluti þurfa menn að geta komið einhverju skikki á, og að enginn vafi sé á því að það eru hverfaskiptingar og annað slíkt sem hjálpa til við það.