Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 15:26:56 (790)

2003-10-17 15:26:56# 130. lþ. 14.12 fundur 30. mál: #A sveitarstjórnarlög# (lágmarksstærð sveitarfélags) frv., AKG
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[15:26]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég er meðal flutningsmanna að þessu frv. um stækkun sveitarfélaga.

Eins og 1. flm. kom að í inngangi sínum þá er það ekki endilega skoðun okkar að lágmarkstalan þurfi að vera 1.000 manns, það er tala sem hlýtur að verða til skoðunar í umfjöllun um þetta mál í viðkomandi nefnd. Sama má segja um landfræðilegar aðstæður.

Það er nokkuð auðsætt að svæði sem búa við jafnsérstæðar aðstæður og t.d. Grímsey hljóta að verða til skoðunar þó að við höfum dæmi um eyju sem tilheyrir sveitarfélagi sem nær yfir fastalandið líka, þ.e. Flatey á Breiðafirði. Einnig má líta á Strandirnar þar sem samanlagður fjöldi íbúa er ekki 1.000. Þetta hlýtur að verða allt til skoðunar. En jafnframt getur sameining sveitarfélaga og kröfur um lágmarksfjölda líka verið rök um ákveðnar úrbætur, t.d. í samgöngumálum við önnur nærliggjandi svæði. Þar má einmitt tiltaka Strandirnar þar sem liggur nokkuð vel við að bæta samgöngur inn í Breiðafjörð og Barðaströndina og Dalasýslu.

Meðan sveitarfélög eru jafnsmá og nú er mikil hætta á því að íbúarnir verði af ákveðinni þjónustu sem þeim ber, samkvæmt sveitarstjórnarlögum, og ýmsum tækifærum sem þeim mundu sjálfkrafa bjóðast væru þeir hluti af stærra sveitarfélagi. Það er hægt að koma á samstarfi. Við þekkjum öll byggðasamlögin sem hafa verið stofnsett á Íslandi um hina ýmsu þjónustu. En það fyrirkomulag er flókið og ákaflega dýrt ef það þarf að setja upp flest ef ekki öll málefni sem teljast mikilvæg.

Mikilvægasti þátturinn í þessu máli er þó sá sem 1. flm. kom inn á, þ.e. möguleiki sveitarfélaga til þess að taka að sér verkefni frá ríkinu. En það er nokkuð ljóst að á meðan sveitarfélögin eru jafnlítil og vanmáttug og nú getur það ekki gengið. Ég er þó ekki á þeirri skoðun að sveitarfélögin verði í sjálfu sér eitthvað sterkari við sameiningu tveggja eða fleiri vanmáttugra sveitarfélaga, heldur þarf ýmislegt fleira að koma til. Sameining gefur okkur þó þann möguleika að hlúa betur að sveitarfélögunum og svæðunum.