Stuðningur við sjálfstæði Færeyja

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 13:55:15 (818)

2003-10-28 13:55:15# 130. lþ. 15.91 fundur 98#B stuðningur við sjálfstæði Færeyja# (aths. um störf þingsins), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[13:55]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni fyrir að koma fram með þetta mál. Við gerum okkur öll grein fyrir því að við stöndum dyggilega að baki vinaþjóð okkar, Færeyingum, og höfum gert það um árabil. Ég vil minna á það í þessu sambandi að ég tel að þingheimur hafi verið einhuga um að aðstoða Færeyinga lagalega við undirbúning sjálfstæðistöku þannig að það er enginn vafi í mínum huga að Alþingi Íslendinga stendur heils hugar á bak við Færeyinga í þeirra vinnu til þess að koma sjálfstæðismálum sínum áfram.

En ég tek undir með hv. þm. sem hafa gagnrýnt hversu klaufalegt það er að ekki skuli fara fram umræða um þessi mál í ríkisstjórninni, í utanrmn. og hér á hinu háa Alþingi vegna þess að það er klaufaleg aðkoma ef það kemur þingmönnum í opna skjöldu hvernig staðið er að atkvæðagreiðslu í Norðurlandaráði, eins og raun ber vitni. Það þarf fyrst og fremst að taka á þessu máli heima fyrir.

Ég tel að allir Íslendingar séu sammála því að það beri að styðja Færeyinga í viðleitni þeirra til að taka sem flest mál í sínar hendur sem síðan leiðir til fulls sjálfstæðis. Þetta er þá fyrst og fremst gagnrýni á þá vinnuaðferð sem er viðhöfð heima fyrir, að málið skuli ekki rætt í ríkisstjórn og í utanrmn. og hér á hinu háa Alþingi. Það væri full ástæða til.

Ég vil bara koma þessum málum að. Ég tel að við séum öll sammála um að styðja frændur okkar, Færeyinga, í vinnu þeirra til sjálfstæðis.