Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 14:58:09 (839)

2003-10-28 14:58:09# 130. lþ. 15.10 fundur 18. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (félagsgjöld til stéttarfélags) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[14:58]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Fróðlegt hefur verið að hlýða á orð hv. þm. Péturs H. Blöndals um þetta mál. Það var einnig fróðlegt að heyra hann víkja að barnafjölskyldunum og það er einmitt mál sem við höfum flutt í þinginu varðandi skatta barnafjölskyldna og hvernig mætti horfa til þess að lagfæra stöðu barnafjölskyldunnar í landinu. Ég fagna því að hv. þm., formaður efh.- og viðskn., er frekar jákvæður í þá veru að telja að það sé þarft mál.

Síðan vill þannig til, virðulegi forseti, að á morgun mun ég sennilega mæla fyrir breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt í sambandi við ferðakostnað sem hv. þm. vék einnig að. Ég fagna því einnig alveg sérstaklega ef hann tekur undir það með þeim orðum sem hann hefur hér látið falla að það kæmi vel til greina.

Ég átta mig hins vegar ekki á því hvers vegna hann hafnar því réttlætismáli sem hér er til umræðu vegna þess að í raun og veru er verið að gera jafngilda atvinnurekendur og launþega að þessu leyti. Ég sé ekki nein rök til þess, fyrir utan það að það stangast sennilega á við efni í stjórnarskrá okkar, hvernig má mismuna þegnum landsins að þessu leyti á sama vinnumarkaðnum, þ.e. annars vegar atvinnurekendum og hins vegar launþegum sem eru báðir að vinna að hagsmunamálum sínum og nota til þess tekjur af stéttarfélagsgjaldi.

Hv. þm. vék að því að ég hefði nefnt sjúkrasjóðina í þessu tilfelli sem væru skattlagðir. Það er rétt. Og hann vék að því að sjúkrasjóðirnir tækju gjöld utan skattkerfisins, þ.e. að atvinnurekendur greiddu í sjúkrasjóðina, það er líka rétt svo langt sem það nær hjá hv. þm. En það gleymist hins vegar að sjúkrasjóðir lenda stundum í því að greiða meira en í þeim er. Ég þekki dæmi þess að stéttarfélagsgjöld hafi verið látin renna í sjúkrasjóði til að standa undir ákveðnum skuldbindingum.