Kirkjuskipan ríkisins

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 16:16:00 (857)

2003-10-28 16:16:00# 130. lþ. 15.11 fundur 14. mál: #A kirkjuskipan ríkisins# (aðskilnaður ríkis og kirkju) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[16:16]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Einari Karli Haraldssyni fyrir svörin en spyrja jafnframt af því að hv. þm. talar um þennan fjárhagslega ramma sem unnið er eftir. Nú eru kirkjunnar menn alls ekki sáttir við þann ramma því hann hefur kallað á hagræðingu innan kirkjunnar og mikil átök um niðurlagningu prestakalla og þessi rammi gerir það að verkum að stór prestaköll, aðallega hér í þéttbýlinu, eru algerlega undirmönnuð og það eru dæmi um það að einstakir prestar eru með fleiri þúsund manna sóknir sem þeir ráða engan veginn við. Þannig að við erum náttúrlega að tala hér í grunninn. --- Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann geti ekki verið sammála mér um að þörf sé á að efla þjóðkirkjuna á þeim svæðum þar sem fólksfjölgunin er mest. Ég þekki víða til þar sem er hálfgildings vandræðaástand út af því að menn eru kannski einyrkjar eins og ég sagði í fleiri þúsund manna byggðarlögum og þá verða átökin uppi vegna þessa fjárhagslega ramma sem er settur, í samskiptum ríkis og kirkju, þá verða slagsmálin, sem eru nú oft erfið, að skera niður annars staðar til þess að auka þjónustuna þar sem fólki hefur fjölgað. Ef til vill er þetta alröng stefna að teknu tilliti til dreifbýlis, mikilla vegalengda o.s.frv. Ég tel því að svona umræða sé mjög nauðsynleg, svona skoðun sé mjög nauðsynleg. Það má ræða um það að mínu mati og ég get verið sammála hv. þm. Einari Karli Haraldssyni um það að þetta er kannski ekki spurning um fimm ár, það geta verið sjö ár þess vegna í umræðunni um málið, en ég tel þetta mjög mikilvægt og vil spyrja hv. þm. hvort hann geti verið sammála mér um það sérstaklega gagnvart þessum stóru sóknum sem eru núna undirmannaðar að mínu mati hvað varðar þjónustu presta.