Vextir og verðtrygging

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 16:48:26 (864)

2003-10-28 16:48:26# 130. lþ. 15.12 fundur 22. mál: #A vextir og verðtrygging# (verðtryggð útlán) frv., Flm. ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[16:48]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er ef til vill umræða til hliðar við meginefni þessa frv. Ég var einvörðungu að benda á hvað rannsóknir leiddu í ljós hvað þetta snertir. Hins vegar get ég getið þess að í skýrslunni sem ég vitna til frá viðskrn. í október 1998 kemur fram að einhverju sinni þegar bresk stjórnvöld leituðu leiða til að ná raunvaxtakostnaði niður, þá var hafinn mikill áróður fyrir verðtryggðum lánum til þess beinlínis að draga úr vaxtakostnaði sem þá þótti hafa keyrt úr hófi fram þar í landi. Ég er einvörðungu að benda á skýrslur sem gerðar hafa verið, athuganir sem gerðar hafa verið. Menn geta síðan dregið sína lærdóma eða niðurstöður af þeim málum.

Ég vek athygli á að í greinargerð með þessu frv. mínu tek ég það sérstaklega fram að mér finnist ástæða til að endurskoða verðtrygginguna með hagsmuni lántakandans sérstaklega í huga, þannig að því fer fjarri að ég sé að hengja mig í einhverjar klisjur í þessu máli, síður en svo.