Lögreglulög

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 17:05:15 (867)

2003-10-28 17:05:15# 130. lþ. 15.13 fundur 26. mál: #A lögreglulög# (löggæslukostnaður á skemmtunum) frv., Flm. SigurjÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[17:05]

Flm. (Sigurjón Þórðarson):

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta felur í sér að fella í burtu það heimildarákvæði sem er í lögreglulögum sem heimilar lögreglustjórum að innheimta sérstakan löggæslukostnað. Ástæðurnar fyrir að brýn nauðsyn er að fella í burtu heimild til þess að innheimta löggæslukostnaðinn eru einkum af þrennum toga.

Í fyrsta lagi er lagaramminn fyrir innheimtu löggæslukostnaðarins mjög ótraustur. Í öðru lagi hefur notkun heimildarinnar til að innheimta gjaldið verið mjög handahófskennd í framkvæmd og særir í raun réttlætiskennd almennings. Í þriðja lagi er aðalreglan sú að kostnaður vegna starfsemi lögreglunnar er greiddur úr ríkissjóði. Einu undantekningarnar eru löggæslukostnaður á skemmtunum og kostnaður vegna framkvæmda eða flutnings á óvenjulegum eða hættulegum farmi.

Hinn 8. ágúst 2001 skipaði hæstv. dómsmrh. starfshóp til að fara yfir gildandi lög og reglur um skemmtanahald á útihátíðum. Starfshópurinn skilaði ágætri skýrslu um störf sín þann 11. júlí 2002. Í skýrslunni kemur m.a. fram að reglur um skemmtanir og skemmtanaleyfi byggjast á ótraustum lagagrundvelli og að umboðsmaður Alþingis hafi oftar en einu sinni gert athugasemdir við gildandi fyrirkomulag. Bent er á að nauðsynlegt sé að setja skýrari lagaramma á þessu sviði.

Helstu reglur um þessi atriði er að finna í reglugerð nr. 587/1987, um löggæslu á skemmtunum og um slit á skemmtunum og öðrum samkvæmum, sem sett var í gildistíð laga um lögreglumenn frá 1972, sem lögreglulög, nr. 90/1996, leystu síðar af hólmi, og laga nr. 120/1947, um heimild til þess að marka skemmtunum og samkomum tíma. Skemmtana- og mótshald Íslendinga hefur vitaskuld breyst á þeim tíma síðan þessi lög voru sett árið 1947. En hæstv. dómsmrh. mun hins vegar hafa sett viðmiðunarreglur um útihátíðir á árinu 1990.

Nýleg dæmi sýna við hvaða vandamál er að etja hvað varðar notkun á viðkomandi reglum. Ungmennafélag Íslands var síðasta sumar krafið um greiðslu fyrir löggæslu á íþróttamóti sem haldið var um verslunarmannahelgina þrátt fyrir að aðgangur væri ókeypis. Í reglugerð nr. 587/1987 segir hins vegar að einungis þurfi að fá leyfi hjá lögreglustjóra ef selt er inn á skemmtun. En samt sem áður var löggæslukostnaður innheimtur af umræddu móti. Grundvöllur kröfu lögreglustjóra um greiðslu fyrir löggæslukostnaði virðist byggjast á því að um skemmtun sé að ræða sem skemmtanaleyfi þurfi fyrir og þá jafnframt að um ,,skemmtistað`` sé að ræða. Í lögunum er ekki skilgreint hvers konar skemmtanir þurfi skemmtanaleyfi eða hvað sé skemmtistaður í skilningi laganna. Ákvæði reglugerðarinnar mæla svo fyrir um hvaða skemmtanir þurfi skemmtanaleyfi og teljist þar með gjaldskyldar samkvæmt lögunum.

Ég var staddur á Ísafirði þar sem unglingalandsmótið fór fram og mér finnst lögregluyfirvöld þar hafa teygt og togað hugtakið ,,skemmtistaður`` ansi langt og í raun séu þau á mjög þunnum ís hvað varðar túlkun á reglugerð um löggæslu á skemmtunum. En nú er svo komið að Ungmennafélag Íslands hefur ályktað sérstaklega um þennan óréttláta löggæslukostnað, en ályktunin er á þessa leið, með leyfi forseta:

,,43. sambandsþing Ungmennafélags Íslands haldið 18.--19. október 2003 á Sauðárkróki skorar á stjórnvöld að tryggja að landsmót og íþróttamót á vegum ungmennafélaganna séu undanþegin innheimtu á löggæslukostnaði.``

Lagaramminn um þátttöku í löggæslukostnaði er mjög ótraustur eins og áður segir og byggist reglugerðin vægast sagt á mjög hæpinni lagastoð. Hæstv. dómsmrh. hefur ekkert aðhafst til að gera nauðsynlegar breytingar þrátt fyrir ábendingar og niðurstöður starfshóps sem hann skipaði sjálfur eins og kom fram áðan. Nauðsynlegt er að eyða þessari réttaróvissu. Með því að samþykkja frv. væri þeirri réttaróvissu eytt.

Í 33. gr. lögreglulaga frá árinu 1996 er kveðið á um að allur kostnaður af starfsemi lögreglunnar greiðist úr ríkissjóði. En síðan kemur í 34. gr. þetta heimildarákvæði sem ég legg til að verði fellt brott. Með því að samþykkja frv. væri sú heimild úr sögunni og allur kostnaður greiddist úr ríkissjóði.

Dómsmrn. hafði í bréfi frá árinu 1999 lagt til að þessi vafasami löggæslukostnaður væri í raun aðeins innheimtur í undantekningartilfellum. Lögreglustjórar áttu í stað þess að mæta kostnaði á útihátíðum að sækja í sérstakan sjóð í dómsmrn. vegna fjárútláta útihátíða og landsmóta. Það sætir því ákveðinni furðu að sama sumar og sú ágæta skýrsla kemur út sem bendir á þennan veika lagagrunn kemur nýtt bréf frá dómsmrn. þar sem kveðið er á um að það eigi að innheimta löggæslukostnaðinn í enn ríkari mæli en áður. Það sem virtist reka dómsmrn. áfram var í rauninni fjárskortur til þess að sinna skyldu sinni um löggæslu á útihátíðum.

Í bréfi til sýslumanna frá 28. júní 2002 er kveðið á um að einungis verði greiddur þriðjungur löggæslukostnaðar vegna fjölsóttra hátíða og landsmóta úr sjóði ráðuneytisins. Og sömuleiðis verði sett hámark á greiðsluna, 1,5 milljónir.

Virðulegi forseti. Það virðist vera mjög handahófskennt við hvaða tækifæri löggæslukostnaður er innheimtur og særir það réttlætiskennd almennings. Í sumar sáum við að lítil bæjarhátíð á Skagaströnd var látin greiða háan löggæslukostnað en þar fór lítið annað fram en dansleikur og guðsþjónusta. Á sama tíma fór fram miklu stærri hátíð í stærri bæ, Akureyri. Þar var ekki innheimtur umræddur löggæslukostnaður þrátt fyrir að þar væri mun meira um að vera fyrir lögregluna. Hvaða rök eru fyrir þess háttar handahófskenndri gjaldtöku? Ég get alls ekki séð að nokkur málefnaleg rök séu fyrir henni. Þess vegna ber að taka þessa heimild frá lögreglustjórum svo þeir þurfi ekki að beita henni.

Fleiri hafa furðað sig á svipaðri gjaldtöku, m.a. Sæmundur Gunnarsson á Skagaströnd, en hann beindi þeirri fyrirspurn í fyrra til dómsmrn. sem var eitthvað á þá leið hvers vegna verið væri að innheimta 1,3 milljónir í löggæslukostnað af Kántríhátíð á Skagaströnd á meðan enginn löggæslukostnaður væri innheimtur vegna menningarnætur í Reykjavík. Í svari dómsmrn. kom m.a. fram að það skipti verulega máli hvar hátíðir væru haldnar á landinu. Þar sem fyrir væri fjölmennt lögreglulið væri kostnaðurinn ekki innheimtur en þar sem væri fámennt lögreglulið eins og á Blönduósi væri innheimt gjald. Í framhaldi af svari dómsmrn. hljóta menn að spyrja hvort landsmenn séu jafnir fyrir lögunum. Er svonefndur löggæslukostnaður einungis sérstakur smábæjarskattur?

Unglingalandsmót Ungmennafélags Íslands er rukkað um löggæslukostnað á Ísafirði en ekki veit ég til þess að t.d. Knattspyrnusamband Íslands sé rukkað vegna kostnaðar vegna landsleikja í knattspyrnu. En það blasir við að mun meiri löggæslukostnaður er vegna landsleiks í knattspyrnu en unglingalandsmóts á Ísafirði. Af framangreindu má ljóst vera að nauðsynlegt er að hætta þessari tilviljanakenndu innheimtu.

Virðulegi forseti. Aðalreglan er sú að kostnaður vegna starfsemi lögreglunnar er greiddur úr ríkissjóði.

Þeir fjármunir sem innheimtir eru með þessum hætti skipta vart sköpum fyrir fjármögnun lögreglunnar í landinu. Samkvæmt lögum er það íslenska ríkið sem á að halda uppi allsherjarreglu í landinu og lögreglustjórum er falið að meta hvað til þurfi hverju sinni. Af þeim sökum er rétt að ríkið beri þann kostnað. Innheimta smábæjarskattsins er aftur á móti uppspretta deilna og þrætumála við þá aðila í landinu sem síst skyldi. Tíma og kröftum lögreglustjóra landsbyggðarinnar er miklu betur varið í önnur mikilvægari verkefni en að standa í stappi við íþróttahreyfinguna og sveitarfélögin. Mér þætti ekki ólíklegt að sýslumaðurinn á Sauðárkróki vildi gjarnan losna við að innheimta löggæslukostnaðinn á landsmóti ungmennafélaganna á næsta ári. Ég tel að löggæslunni í landinu væri greiði gerður með því að losna við að þurfa að innheimta þennan löggæslukostnað.

Mér finnst augljóst að þetta mál eigi að fara hratt og vel í gegnum þingið. Ég hef starfað innan Ungmennasambands Skagafjarðar og ég veit að menn fylgjast með þessu í ungmennafélögunum víðs vegar um land vegna þess að hér er um einfalt réttlætismál að ræða. Því ætti hið háa Alþingi að taka vel í frv. og breyta þessu og fella niður löggæslukostnað á íþróttafélögin og smábæi á landinu.