Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 18:32:17 (881)

2003-10-28 18:32:17# 130. lþ. 15.22 fundur 99. mál: #A afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum# þál., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[18:32]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum sem ég flyt ásamt hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni, Lúðvíki Bergvinssyni, Jóhanni Ársælssyni, Björgvin G. Sigurðssyni og Rannveigu Guðmundsdóttur. Þessi tillaga er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela viðskiptaráðherra að skipa nefnd sem leggi mat á afnám verðtryggingar fjárskuldbindinga í áföngum. Nefndin meti áhrifin til lengri og skemmri tíma á fjármálamarkaðinn og fjárskuldbindingar heimila og atvinnulífs og setji m.a. fram áætlun til nokkurra ára um afnám verðtryggingar miðað við mismunandi verðbólgustig og forsendur Seðlabankans um verðbólguspá. Skoðaðir verði kostir þess og gallar að afnema verðtryggingu á inn- og útlánum í áföngum sem og að lántakendur hafi val um lánskjör með og án verðtryggingar.

Nefndin skal skipuð með aðild aðila vinnumarkaðarins, Fjármálaeftirlitsins, Seðlabanka og Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja.``

Með þessari tillögu er lagt til að skipuð verði nefnd sem leggi mat á afnám verðtryggingar fjárskuldbindinga í áföngum. Afar mikilvægt er að kostir og gallar þess séu metnir af fyllstu varfærni, en ljóst er að verðtrygging fjárskuldbindinga snertir mikla hagsmuni. Lagt er til að nefndin meti áhrifin til lengri og skemmri tíma á fjármálamarkaðinn og fjárskuldbindingar heimila, atvinnulífs og hins opinbera. Jafnframt er lagt til að sett skuli fram áætlun til nokkurra ára um afnám verðtryggingar miðað við mismunandi verðbólgustig og forsendur.

Verðtrygging hefur verið á inn- og útlánum á Íslandi í langan tíma. Meginforsendan fyrir verðtryggingunni var að hindra að sparifé landsmanna brynni upp í mikilli verðbólgu eins og raunin hafði verið á sjötta og sjöunda áratugnum. Jafnframt hafði verðtrygging verulega þýðingu til að jafna út greiðslubyrði lántakenda á tímum mikilla hagsveiflna. Verðtryggingu hefur aldrei verið beitt í útlánum lánastofnana til heimila í ríkjum OECD, að Íslandi undanskildu, heldur hefur notkun hennar einskorðast við ríkisskuldabréf.

Stundum, a.m.k. af og til hér í þingsölum, hafa komið upp raddir um að afnema beri verðtryggingu á fjárskuldbindingum. Ég man eftir því að fyrir 15--20 árum var viðkvæðið að það þyrfti að ríkja stöðugleiki um nokkurn tíma til að menn treystu sér út í að afnema verðtryggingu á fjárskuldbindingum. Nú hefur ríkt stöðugleiki um nokkurra ára skeið og því rétt og eðlilegt að þetta mál verði skoðað með þeim hætti sem hér er lagt til.

Það verður að líta til þess að efnahagslegar aðstæður eru í dag allt aðrar en þær sem kölluðu á verðtryggingu undir lok áttunda áratugarins þegar verðbólga var mjög sveiflukennd og sparifé landsmanna brann upp á verðbólgubálinu. Veruleg breyting hefur orðið á fjármálamarkaðnum. Umsvif fyrirtækja og fjármálaviðskipta hafa vaxið mikið og tekið verulegum stakkaskiptum með auknu frjálsræði á fjármagnsmarkaði, opnara þjóðfélagi og sívaxandi alþjóðavæðingu. Auk þess sem innleitt hefur verið frelsi í vaxtaákvörðunum er fjármagnsflæði milli landa orðið vaxandi þáttur í atvinnulífinu. Jafnframt því eru fyrirtæki í auknum mæli að færa út starfsemi sína til annarra landa. Verðtryggingin hafði vissulega afar jákvæð áhrif á fjármálamarkaðinn, einkum fyrir peningalegan sparnað, og var því nauðsynleg á tímum niðursveiflu og mikillar verðbólgu.

Virðulegi forseti. Stöðugleiki hefur varað í hartnær tíu ár með nokkrum undantekningum í verðbólguskotum sem staðið hafa í tiltölulega skamman tíma. Þau verðbólgumarkmið sem Seðlabankinn vinnur nú eftir ættu líka að auðvelda gerð skipulegrar áætlunar um afnám verðtryggingar í áföngum. Vissulega er mikilvægt að markaðurinn hafi trú á viðvarandi stöðugleika og sterkri peningamálastjórn. Það er einmitt ein meginástæða þess að rétt er að fara varlega í sakirnar eins og hér er gert ráð fyrir.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara nánar út í þá tillögu sem hér liggur fyrir. Ég geri mér fulla grein fyrir þeim áhyggjum sem ýmsir hafa af því að afnema verðtrygginguna. Það er einmitt ástæðan fyrir því að hér er varlega stigið til jarðar. Ýmsir munu halda því fram að þetta leiði til þess að erfiðara verði að fá lánsfé til lengri tíma. Ég get út af fyrir sig tekið undir það. Á því er ákveðin hætta. Menn telja líka að lánastofnanir muni áskilja sér hærra áhættuálag í vöxtum og því hærri sem þeir telja að verðbólgan verði, þeim mun hærri verði nafnvextirnir. Því hræddari sem þeir yrðu um að verðbólgan gæti aukist, þeim mun hærra yrði verðbólguálagið og þar með vextirnir. Þetta eru rök sem teflt er fram og vissulega ber að horfa til en engu að síður þurfum við að feta okkur með markvissari hætti en gert hefur verið út úr verðtryggingunni. Þess vegna er þessi tillaga sett fram.

Það er sett fram í greinargerðinni að líklega sé fyrst í stað skynsamlegast að afnema verðtrygginguna á fjárskuldbindingum, lánveitingum, til skemmri tíma en 20 ára. Ég hygg að það gæti verið ein leið sem vert væri að skoða. Einnig er lögð áhersla á að skoðað verði að heimila að lántakendur hafi val um lánskjör með og án verðtryggingar.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þessari tillögu vísað til síðari umr. og hv. efh.- og viðskn.