Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 18:38:56 (882)

2003-10-28 18:38:56# 130. lþ. 15.22 fundur 99. mál: #A afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[18:38]

Pétur H. Blöndal:

Frú forseti. Það er rétt sem kom fram í ræðu hv. þm., að verðtryggingin var á sínum tíma tekin upp til að bjarga innlendum sparnaði sem stefndi óðfluga í hrun vegna þess að raunvextir voru mínus 10% til mínus 20%. Við bjuggum sem sagt við óðaverðbólgu. Það tókst að bjarga stöðu innlends sparnaðar. Sérstaklega, frú forseti, tókst að bjarga lífeyrissjóðunum. Það er beint samhengi á milli verðtryggingar í þjóðfélaginu og verðtryggingar lífeyris lífeyrissjóðanna, frú forseti. Vilji menn afnema verðtryggingu, eins og einu sinni voru uppi hugmyndir um, með einu pennastriki, væru þeir í raun um leið að afnema verðtryggingu á lífeyri lífeyrisþeganna og lífeyrissjóðanna. Þeir borga helming af öllum lífeyri í landinu.

Laun hafa hækkað miklu meira en verðlag undanfarin ár. Sumir þakka það erlendum aðstæðum, aðrir þakka það ríkisstjórninni. Ég hallast að sjálfsögðu að því seinna, frú forseti. Skuldbindingar vegna lána hafa því lækkað miðað við laun og horfir meira að segja til vandræða hjá Lánasjóði ísl. námsmanna. Menn eru farnir að borga lánin svo hratt niður að þeir eru farnir að kvarta undan því. En þeir máttu gera ráð fyrir því, þegar þeir tóku lánin, að þau stæðu til miklu lengri tíma og launin mundu ekki hækka svona mikið. Þar er borgað hlutfall af launum í afborganir.

Vandinn í þessu er kannski að verðtryggingin hækkar eins og verðlag, þ.e. lífeyrir hjá lífeyrissjóðunum, en ekki eins og laun eins og t.d. bætur frá Tryggingastofnun hafa gert. Þetta er einn þáttur í vanda lífeyrisþega sem aldrei er nefndur.

Við búum í dag við tvískiptan lánamarkað og allir sem vilja, frú forseti, geta tekið óverðtryggð lán. Vilji menn ekki taka verðtryggð lán, þá bara verði þeim að góðu og taki óverðtryggð lán. Vilji menn endilega fara með verðtryggð lán yfir í óverðtryggð þá geta þeir borgað upp sitt verðtryggða lán og tekið óverðtryggt. Það er (JóhS: En til hve langs tíma?) bara allur vandinn. Það sem gerist er einmitt, frú forseti, að menn fá það ekki til eins langs tíma. Hvernig skyldi nú standa á því? Það er vegna þess að áhætta þess sem á fjármagnið, oft og tíðum lífeyrissjóðs, er of mikil til að lána til langs tíma með óverðtryggðum vöxtum. Þegar verðbólguskotið varð fyrir tveimur árum, 8%, hefðu óverðtryggðir vextir þurft að fara upp í 15--16%. Greiðslubyrðin hefði aukist svo mikið að fólk hefði komist í greiðsluþrot. Maður sem skuldar 5 millj. kr. hefði þurft að borga 15% af því bara í vexti, 750 þús. kr. á ári. Það er ekki viðráðanlegt. Það er nefnilega kosturinn við verðtryggðu lánin. Þau eru mjög þægileg viðureignar upp á greiðslubyrði að gera.

Svo hefur komið fram í könnunum --- hv. þm. Helgi Hjörvar kallaði það reyndar eitthvað, ég man ekki hvort hann kallaði það plat, reyndar sagði hann ekki alveg það --- að verðtryggðir vextir hefðu alltaf verið lægri en óverðtryggðir. Þetta var mjög einfalt að reikna út áður fyrr þegar Seðlabankinn sá um þetta allt saman en eftir að markaðsvextir voru teknir upp og ýmiss konar lánsform þá er þetta ekki svo auðvelt viðureignar. En menn geta hreinlega prófað að taka verðtryggð lán og óverðtryggð lán eða fá tilboð um hvort tveggja, tilboð á netinu, og borið saman hve mikið lægri vextirnir eru miðað við ákveðnar verðbólguforsendur í verðtryggða láninu. Það hefur komið í ljós að verðtryggð lán eru að sjálfsögðu ódýrari fyrir lántakandann en óverðtryggð lán. Þar er áhættan bæði tekin af lántakanda og lánveitanda. Það er þess vegna sem mörg lönd vilja skoða þá leið að taka upp verðtryggingu. Hins vegar átta menn sig á ákveðinni hættu sem því fylgir, að það getur myndast verðbólga í verðtryggðu myntinni en það er önnur saga.

Þetta frv. er ákveðin forsjárhyggja. Ég held að það sé algerlega óþarft. Það er óþarft nú til dags. Í fyrsta lagi af því að verðbólgan er orðin svo lág, verðlag hefur hækkað mikið minna en laun þannig að það hefur orðið léttara og léttara að borga af þessum verðtryggðu lánum sem einu sinni voru tekin. Menn geta jafnframt valið hvort þeir taka verðtryggð lán eða óverðtryggð. Ég sé því engan tilgang í að vera með svona forsjárhyggju og hafa vit fyrir fólki sem getur tekið verðtryggð lán eða óverðtryggð eftir því sem því sýnist.