Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 18:44:02 (883)

2003-10-28 18:44:02# 130. lþ. 15.22 fundur 99. mál: #A afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum# þál., HHj
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[18:44]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og meðflutningsmönnum hennar fyrir þá tillögu sem hér er til umræðu. Ég held að hún sé löngu tímabær og mikilvægt að verðtryggingin sé tekin til alvarlegrar skoðunar, að þegar í stað verði tekin skref í átt til þess að snúa enn frekar af hennar braut. Þó að það sé út af fyrir sig rétt hjá hv. þm. Pétri Blöndal, að sem nauðvörn fyrir sparnað í landinu fyrir um það bil aldarfjórðungi síðan hafi verðtryggingin verið nauðsynleg, þá held ég að hún hafi hin síðari ár verið okkur til óþurftar. Sannarlega greinir okkur á þar, mig og hv. þm. Pétur Blöndal.

Hann fór yfir það mörgum orðum hversu gríðarleg áhætta væri í því fólgin að afnema verðtrygginguna fyrir lífeyrissjóði og lífeyrisþega --- lífeyrisþega lagði hann ríka áherslu á til að málstaður hans væri með þeim hætti að menn gætu samsamað sig honum. Hann á náttúrlega líka við að það væri verið að setja fjármagnseigendur, banka og aðrar fjármálastofnanir í landinu, í verulega áhættu með afnámi hennar.

[18:45]

En hverjum finnst hv. þm. Pétri Blöndal að vert sé að axli þessa áhættu? Jú, hv. þm. Pétri Blöndal finnst ekkert sjálfsagðara en að ungt fjölskyldufólk sem er að stofna heimili og þarf að stofna til mikilla skulda til þess að koma sér upp heimili fyrir sig og fjölskyldu sína taki þá áhættu sem hann ekki treystir fjármagnseigendunum eða fjármálastofnunum til þess að taka. Þar er ég honum ákaflega ósammála og þarf það svo sem, virðulegur forseti, ekki að koma neinum á óvart, enda gæta ég og hv. þm. Pétur Blöndal hagsmuna ólíkra hópa á Alþingi Íslendinga eins og glöggt mátti ráða af orðum hans áðan.

Það var rétt hjá hv. þm. að ég sagði hér fyrr í dag ekki að það væri eitthvert plat að vextir af óverðtryggðum lánum væru hærri en af verðtryggðum lánum. Auðvitað eru vextir af óverðtryggðum lánum á Íslandi hærri en af verðtryggðum lánum. En þá verða menn líka að líta til annarra þátta sem kunna að eiga hlut að máli, svo sem eins og ríkis\-ábyrgða á verðtryggðum bréfum og stöðu á fasteignaveðrétti sem er yfirleitt öllu betri á verðtryggðu lánunum o.s.frv., til þess að um það megi ræða af nokkru viti. Ég benti einfaldlega á að vera kann að í kenningunni eigi raunvextir að vera lægri í verðtryggðu umhverfi. En þegar við berum raunvexti fjárskuldbindinga á Íslandi saman við raunvexti fjárskuldbindinga í nágrannalöndum okkar þar sem ekki er verðtrygging þá sýnir það sig að hér hafa raunvextir verið umtalsvert hærri en þar. Þess vegna er kenningin í veruleikanum, í praxís, ekki beinlínis að ganga eftir. Það hlýtur að vera hinu háa Alþingi nokkurt umhugsunarefni að þau lönd sem einkum notast við verðtrygginguna eru, eins og fram kom fyrr í dag, Argentína, Brasilía, Chile og Ísrael. Einhvers staðar stendur: Segðu mér hverjir vinir þínir eru og ég skal segja þér hver þú ert. Ég held nú að þessi lönd séu ekki þau lönd sem við Íslendingar teljum farsælast að elta í efnahagsstjórn eða stýringu á fjármálamarkaði. Nei, ég held að það sé mjög mikilvægt að við reynum að vinna okkur út úr verðtryggingunni, sérstaklega á seinni árum þegar skuldsetning heimilanna í landinu er orðin jafngríðarleg og raun ber vitni og kannski ekki síst þegar ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að hún ætli nú að ráðast í að veita 90% lán til íbúðarkaupa. Það þýðir í raun að þeir sem kaupa sér húsnæði eiga nánast ekkert í húsnæðinu þegar þeir eru að hefja sinn búskap og þá má fólk ekki við neinu. Þá mega lántakendurnir ekki við þeirri áhættu sem hv. þm. Pétri Blöndal er svo umhugað um að forða bönkunum frá. Lántakendurnir mega ekki við 8% eða 9% verðbólguskoti eins og var hér árið 2001 vegna þess að þá eru skuldir þeirra einfaldlega á örskömmum tíma orðnar meiri en eignirnar. Í slíku óvissuumhverfi er óþolandi fyrir nýjar kynslóðir og ungt fjölskyldufólk að reyna að skipuleggja sig fram í tímann. Það hlýtur að vera krafa þeirra að áhættunni sé a.m.k. deilt ef það á ekki einfaldlega að vera svo að sá sem á vöruna eða fjármagnið og selur hana eigi einfaldlega sjálfur að taka áhættuna af því.