Heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga

Miðvikudaginn 29. október 2003, kl. 13:31:52 (889)

2003-10-29 13:31:52# 130. lþ. 16.1 fundur 76. mál: #A heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 130. lþ.

[13:31]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Hæstv. forseti. Í maímánuði 2001 samþykkti Alþingi þál. þess efnis að ríkisstjórninni væri falið að undirbúa heildstæða og samræmda stefnu í málefnum barna og unglinga en flutningsmenn þessarar tillögu voru þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi. Markmið stefnumótunarinnar var að tryggja hag og velferð barna og unglinga á öllum sviðum þjóðlífsins og búa til sem best og jöfnust skilyrði til uppvaxtar og þroska. Á grundvelli stefnumótunarinnar átti að gera 5 ára framkvæmdaáætlun í samráði við opinberar stofnanir og félagasamtök sem vinna að málefnum barna og unglinga. Þessa framkvæmdaáætlun átti að leggja fyrir Alþingi til staðfestingar eigi síðar en á haustþingi árið 2002, þ.e. fyrir einu ári.

Mér er auðvitað ljóst, virðulegi forseti, að þetta verkefni er umfangsmikið. Það er til fyrirmyndar að við þessa vinnu hefur verið haft samráð við fjölda aðila sem vinna við þennan málaflokk auk þess sem drög að stefnumótun voru kynnt á ráðstefnu sem haldin var 31. janúar á þessu ári. Ég tók þátt í henni ásamt fleiri þingmönnum og fjölda aðila sem vinna að málefnum barna og ungmenna. En nú er liðið ár frá því að leggja átti framkvæmdaáætlunina fyrir þingið og því tel ég tímabært að spyrja hæstv. forsrh. en verkefnið er unnið undir hans forustu: Hvað líður undirbúningi þessarar stefnumótunar í málefnum barna og unglinga? Hvenær verður framkvæmdaáætlunin lögð fyrir Alþingi og hverjar eru helstu tillögur hennar? Ég viðurkenni fúslega að þótt ég viti að verkið hafi verið í góðum höndum hv. þm. Drífu Hjartardóttur sem verið hefur formaður nefndarinnar sem vann þetta verkefni fyrir forsrn. og að hv. þingmaður hafi svo sannarlega metnað til að skila af sér góðum og heildstæðum tillögum í samræmi við efni þáltill. hef ég margvíslegar efasemdir og athugasemdir við þau drög sem kynnt voru á fyrrnefndri ráðstefnu í upphafi árs. Margt var þar jákvætt og athyglisvert en ég vona, virðulegi forseti, að tillit hafi verið tekið til þeirra margvíslegu ábendinga sem þar komu fram og tillögurnar hafi þá breyst í samræmi við þær. Frá þessari ráðstefnu í upphafi árs hef ég lítið heyrt af framvindu mála. Fyrirspurnin sem ég beini til hæstv. forsrh. er þessi, með leyfi forseta:

1. Hvað líður undirbúningi heildstæðrar og samræmdrar opinberrar stefnumótunar í málefnum barna og unglinga, en samkvæmt ályktun sem Alþingi samþykkti 11. maí 2001 átti að leggja framkvæmdaáætlun um slíka stefnu fyrir Alþingi til staðfestingar eigi síðar en á haustþingi árið 2002?

2. Hvenær verður framkvæmdaáætlun lögð fyrir Alþingi og hverjar eru helstu tillögur að opinberri stefnumótun í málefnum barna og unglinga?