Endurskoðun laga um meðferð opinberra mála

Miðvikudaginn 29. október 2003, kl. 13:40:59 (892)

2003-10-29 13:40:59# 130. lþ. 16.2 fundur 49. mál: #A endurskoðun laga um meðferð opinberra mála# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 130. lþ.

[13:40]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. dómsmrh. Árið 2002, 19. febrúar, talaði ég fyrir frv. í þessum ræðustóli um breytingar á lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Gekk frv. út á tvennt, annars vegar réttinn til þess að áfrýja máli úr undirrétti til Hæstaréttar og hins vegar hvernig skipa skuli dóm sem byggir á framburði vitna þar sem leitað er til þeirra.

Ef ég vík fyrst að síðara atriðinu snýst það um að þegar um er að ræða mál sem ráðast af sönnunargildi framburðar vitna er líklegt að nauðsynlegt sé að vega og meta ýmis álitaefni og er eðlilegt að við slíkar aðstæður dæmi fleiri en einn dómari er stuðli að traustara réttaröryggi. Þetta var síðara atriðið.

Hvað fyrra atriðið snertir lít ég svo á að rökin fyrir óheftum áfrýjunarrétti sakfelldra manna í opinberum málum séu svo sterk að þeim sé ekki hægt að víkja til hliðar. Hæstiréttur getur samt meinað mönnum að sækja mál sitt í Hæstarétti ef þeir tapa því í undirrétti. Það eru þær takmarkanir á þessu að talað er um að meina megi mönnum að sækja mál sitt fyrir Hæstarétti ef um minni háttar mál er að ræða. Það ræðst m.a. af því hve þung refsingin er hvað telst minni háttar. Ég grennslaðist fyrir um það í morgun hver sektarfjárhæðin væri núna. Hún stendur í 410.991 kr. Reyndar held ég að engum manni finnist slíkt mál vera minni háttar ef hann er dæmdur í undirrétti en rökin fyrir því að gefa Hæstarétti heimild til þess að meina mönnum að skjóta máli þangað eru fyrst og fremst sparnaðarrök. Hins vegar snýst þetta að mínum dómi um mannréttindi og þess vegna lagði ég þetta mál fram. Niðurstaðan varð sú að allshn. vísaði málinu til dómsmrn. og réttarfarsnefndar sem væri að endurskoða þessi lög, og nú spyr ég:

1. Hvernig miðar störfum réttarfarsnefndar við endurskoðun laga um meðferð opinberra mála og hvenær er að vænta tillagna frá nefndinni?

2. Hefur réttarfarsnefnd fjallað um tillögur um að numdar verði brott takmarkanir við því að maður sem hefur verið sakfelldur í opinberu máli geti áfrýjað til Hæstaréttar, sbr. 265. mál 127. löggjafarþings sem Alþingi samþykkti að vísa til ríkisstjórnarinnar með hliðsjón af starfi nefndarinnar?