Aukin meðlög

Miðvikudaginn 29. október 2003, kl. 13:57:56 (899)

2003-10-29 13:57:56# 130. lþ. 16.3 fundur 128. mál: #A aukin meðlög# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 130. lþ.

[13:57]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Sjónin er að vísu aðeins farin að daprast en ekki heyrnin. Samt er það þannig þegar maður situr í ystu röð í þessum sal að oft og tíðum er afar erfitt að heyra skýrt svör hæstvirtra ráðherra hvort sem því veldur viftan eða hvað það er, eða hljómburðurinn í salnum. Alla vega held ég að þetta þurfi að taka til athugunar.

Ég þakka hins vegar hæstv. ráðherra fyrir það sem ég heyrði af svörunum. Ég gat skilið hann þannig að sú leið sem væri best og færust væri að skylda Innheimtustofnun sveitarfélaga til þess að sjá um innheimtu aukinna meðlaga. Hún hefur þessa heimild í dag. En það ætti hins vegar að vera skylda. Það væri hins vegar ekki á verksviði dómsmrn. heldur félmrn.

Virðulegi forseti. Ég vil þá fara fram á það við hæstv. ráðherra að hann sendi þessa niðurstöðu réttarfarsnefndar til félmrn. Kannski væri hægt að hafa eitthvert samband þarna á milli þannig að menn fyndu þá niðurstöðu í málið því staðreyndin er sú að innheimta aukinna meðlaga hvílir nánast eingöngu og alfarið á því foreldri sem fær þennan úrskurð. Vissulega er það rétt að fjárhagsstaða margra einstæðra feðra eða mæðra sem eiga að greiða slík meðlög getur verið bágborin. Hins vegar er úrskurðurinn yfirleitt byggður á fjárhagsstöðu þess einstaklings sem á að greiða meðlögin. Það er yfirleitt ekki um aukið meðlag að ræða þegar um mjög bága fjárhagsstöðu er að ræða. En það getur hins vegar breyst. Þá er hægt að fara með það aftur fyrir sýslumann.

Þetta skiptir miklu máli því að það er hvorki fjárhagslega né tilfinningalega hægt að leggja það á einstætt foreldri sem þarf á þessari greiðslu að halda vegna bágrar fjárhagsstöðu, vegna veikinda barna eða annarra aðstæðna að þurfa að standa í þessari innheimtu sjálft. Við vitum að þetta er óréttlátt. Við vitum að það þarf að leiðrétta þetta. Við erum búin að ræða þetta hérna í tví- eða þrígang og endilega, virðulegi forseti, ef hæstv. ráðherra mundi nú ræða við hæstv. félmrh. og þeir fyndu saman lausn.