Flutningur sláturfjár yfir varnarlínur

Miðvikudaginn 29. október 2003, kl. 14:04:06 (901)

2003-10-29 14:04:06# 130. lþ. 16.4 fundur 121. mál: #A flutningur sláturfjár yfir varnarlínur# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 130. lþ.

[14:04]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Fleiri gerast nú sérfræðingar en ég ætlaði í dýrasjúkdómum og afleiðingum þeirra. En það er gott að fá liðsmenn til þess að berjast gegn skæðum sjúkdómi sem hefur kostað íslenskan landbúnað og samfélag mikla peninga og ég þakka þann stuðning og vænti þess samt sem áður að hv. þm. setji sig inn í og afli sér þekkingar á þeirri miklu baráttu, þeim mikla árangri sem náðst hefur á 10--15 árum í sambandi við varnir gegn riðu. Ég hygg að það hafi verið algengt að 50--100 bæir hafi verið að fá riðuveiki í sitt sauðfé þegar ég var að byrja hér í þinginu. Nú eru það einn og tveir og þrír. Árangurinn er augljós.

Hv. þm. minntist á að sá sem hér stendur vilji ekki einu sinni flytja ketti inn í landið. Það er gert eftir lögum frá Alþingi og reglum og kettir eru fluttir inn. Hefði hann viljað vera sjálfum sér samkvæmur hefði hann frekar átt að nefna krókódíla sem hafnað var.

En hvað varðar ágætar fyrirspurnir hv. þm. þá stendur málið þannig að fækkun sláturhúsa hefur í för með sér stóraukinn flutning sláturgripa milli landshluta. Til að sporna gegn óheppilegum afleiðingum þessa var þann 23. ágúst 2001 sett reglugerð nr. 635/2001, um bann við flutningi sláturfjár yfir sauðfjárveikivarnarlínur. Byggði sú reglugerð á eldri reglum um þetta efni. Með reglugerðinni er komið í veg fyrir flutning sláturfjár til þeirra svæða sem mikilvægast er að vernda og þar sem enn eru starfrækt sláturhús, svo sem á Hornafirði. Þess ber að geta að öll stærstu sláturhúsin, á Hvammstanga, Blönduósi, Sauðárkróki, Húsavík og Selfossi, eru á svæðum sem ekki er ástæða til að banna flutning sláturfjár til.

Hægt er að draga verulega úr smithættu við flutning sláturfjár milli svæða með því að hafa góðar reglur og skilvirkt eftirlit, fræða þá sem starfa við dýraflutninga og slátrun um hvað varast ber og er þessu fylgt mjög fast eftir. Í þessu sambandi hafa verið samdar sérstakar starfsreglur fyrir þessa aðila og áhersla lögð á það við kjötskoðunardýralækna að líta eftir því að þær séu virtar. Krafa er gerð á sláturleyfishafa að leggja til góða aðstöðu til þrifa og sótthreinsunar á flutningabílum. Kjötskoðunardýralæknar hafa það hlutverk hver í sínu sláturhúsi að líta eftir því að vandað sé til þeirrar vinnu og votta ef með þarf að slík sótthreinsun hafi farið fram. Sama gildir um kröfu á sláturleyfishafa að útvega hlífðarfatnað og hafa til staðar góða aðstöðu fyrir innleggjendur til þrifa á skófatnaði að lokinni afhendingu fjárins í sláturhúsrétt. Langflutningar sláturfjár snerta einnig dýravernd vegna aukins álags, þreytu og streitu og stefna í hættu gæðum afurðanna.

Hvað síðari spurninguna varðar þá er það auðvitað stefna bændanna að reyna að hafa sem mest út úr sínum afurðum. Þeir hafa barist fyrir og talið mikilvæga fækkun sláturhúsanna. Ríkið hefur komið að stuðningi hvað það varðar og lagt fram fjármagn eins og hv. þm. minntist á.

Litið hefur verið á þá framkvæmd að fækka sláturhúsum sem einn mikilvægasta liðinn í að efla stöðu sauðfjárræktarinnar og treysta tekjustöðu bænda. Er jafnvel talið að sú hagræðing sem nú er geti skilað 200--300 millj. meira til bænda eða hagræðingin á að geta skilað því í auknum tekjum til þeirra ef hún gengur eftir eins og hún er lögð upp.

Með vísan til þessa er útilokað að reka sláturhús á Ströndum sérstaklega. Og ég lýsi því hér yfir að ríkið ætlar ekki að reka sláturhúsin og ríkið ætlar ekki að byggja upp sláturhús á Ströndum. Þetta verkefni er á höndum bændanna. Og ég hygg að engir séu strangari og harðari um að allar varnir séu hafðar í frammi en einmitt þeir bændur sem búa á hinum heilbrigðu svæðum þar sem riðan hefur aldrei komið upp og skilja það öðrum fremur að það eru þeirra hagsmunir að öll þau öryggisatriði sem sett hafa verið fram og hv. þm. minntist hér á í ágætri ræðu, séu virt og höfð að leiðarljósi. Þannig stendur þetta mál.

Til þess að sporna gegn þeirri hættu sem stafað getur af auknum flutningi sláturfjár ber hins vegar að leggja áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir til þess að hindra að smit berist milli svæða svo sem ég hef hér farið yfir í minni ræðu. Við eigum enga leið aðra. Það er rétt hjá hv. þm. að vísindamennirnir vita ekki svo mikið um riðuna og hvernig hún berst, þar heyrum við ýmsar fullyrðingar, en hitt er ljóst að árangurinn er mikill á síðustu 10--15 árum sem ber að fagna og þakka, hæstv. forseti.