Flutningur sláturfjár yfir varnarlínur

Miðvikudaginn 29. október 2003, kl. 14:13:45 (905)

2003-10-29 14:13:45# 130. lþ. 16.4 fundur 121. mál: #A flutningur sláturfjár yfir varnarlínur# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 130. lþ.

[14:13]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég ætla bara í upphafi að spyrja að því: Hvor var illskeyttari eða með meiri fýlusvip í sinni ræðu, ég eða hv. þm. sem var fyrirspyrjandi? Það er fullyrðing sem eru skiptar skoðanir um hvort það var ég eða hann. En ráðherrar eru nú ekki bara hérna til að vera poki til þess að berja. Og hv. þm. hélt hér ræðu þar sem hann byrjaði á því að gera lítið úr því sem gert hefði verið, eins mikið og hefur nú verið gert í þessum vörnum. Þannig að það var skapvonska hans sem gerði það að verkum að mér fannst ég geta alveg sagt sem svo að hann gæti komið öðruvísi að þessum málum. Því í fáum málum hefur meira verið gert. Þannig að ég var nú ekki önugri en hv. þm. En ég vek bara athygli á því að menn sem byrja með illsku geta fengið illsku á móti. Það er nú bara svo einfalt þetta líf. Það ber að tala við menn eins og menn og ekki vera alltaf með aðdróttanir um að ekkert sé gert og allt sé svikið.

[14:15]

Það hefur í fáum málum sem snerta sjúkdómavarnir í landinu jafnmikið verið gert og til að verjast riðunni (Gripið fram í.) og landbrn. stendur enn og hefur staðið fyrir því að sú mikla starfsemi hefur skilað mjög miklum árangri þó ég taki undir það að enn vita menn of lítið um málið, hvernig það berst.

Hvað flutninga varðar á milli svæða, þá eru miklar breytingar á því. Ég hygg að Evrópusambandinu, svo að ég nefni það sem dæmi, sem hv. þm. vill ganga í, þættu þetta stuttar leiðir. Nú er verið að fara með fé á milli héraða í 400--500 lamba bílum, mjög góðum bílum með vatni og loftræstingu. Þegar ég var strákur fóru 70 lömb á pallinn og var þröngt og sum köfnuðu á leið í sláturhús á þeim tíma. En bændurnir fara með sláturhús, þeir geta auðvitað rekið og byggt upp sláturhús á Ströndum en við teljum að vegna riðuvarna höfum við nóg önnur úrræði (Forseti hringir.) til þess að verja hin heilbrigðu svæði og landbrn. hefur og mun leggja mikið á sig til þess að halda riðunni frá íslenskri sauðkind og sérstaklega þessum hreinu, heilbrigðu svæðum.