Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 29. október 2003, kl. 14:45:09 (908)

2003-10-29 14:45:09# 130. lþ. 17.11 fundur 32. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (ferðakostnaður) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 130. lþ.

[14:45]

Pétur H. Blöndal:

Frú forseti. Við ræddum í gær frv. um að félagsgjöld í stéttarfélög yrðu frádráttarbær frá skatti. Það var sem sagt eitt af þeim góðu málum sem við ræðum hérna dags daglega. Í skattkerfinu í dag eru nokkur atriði sem eru svona góð, t.d. er iðgjald í lífeyrissjóð frádráttarbært. Við erum með sjómannaafslátt sem upphaflega var settur upp sem hlífðarfatakostnaður sjómanna, en breyttist svo í áratuganna rás og kostar ríkissjóð 1,5 milljarða. Við erum með dagpeninga sem vaxa upp í himininn vegna aukinna ferðalaga sem þeir stuðla að. Það er líka mjög gott mál að sjálfsögðu. Svo erum við með bílastyrki sem er líkt því máli sem við ræðum hér í dag. Það kerfi er mjög flókið, hefur reyndar ekki vaxið mikið á undanförnum árum. Það eru orðnar allmyndarlegar tekjur sem ríkissjóður missir þar. Allt eru þetta réttlætismál.

Ég gæti nefnt fleiri réttlætismál eins og hv. síðasti ræðumaður sem vitnaði í norsku lögin. Ég kynnti mér einu sinni fyrir langalöngu þýsku lögin sem reyna að koma að öllum mögulegum og ómögulegum kostnaði og draga hann frá skatti. Þar má m.a. draga frá skatti notkun gleraugna í vinnu. Nú og notkun heyrnartækja má draga frá skatti, að því leyti sem þau eru notuð í vinnunni að sjálfsögðu, hlutfallslega. Svo getur maður dregið frá skatti batterí í heyrnartæki, líka að því leyti sem þau eru notuð í vinnunni. Ef þau eru tekin úr heyrnartækjunum á nóttunni, af því heyrnartækin eru ekki í notkun þá, eykst hlutfallið sem þau eru notuð í vinnunni, þannig að það eru kannski 37% notkun í vinnunni og hægt að draga frá 37% af einu batteríi. (Gripið fram í.) Já það kemur líka til.

Þetta leiðir til ótrúlega mikillar skriffinnsku. Menn sitja og fylla út vegaskýrslur og annað slíkt, t.d. varðandi ferðakostnað. Hvernig keyri ég í vinnuna? Fer ég stystu leið? Fer ég hraðvirkari leið í gegnum eitthvert úthverfi, eða hvaða leið fer ég? Hvernig reiknar maður kílómetrana? Ágreiningur við þýska skattborgara gengur út á þetta. Hvað gerist ef maður og kona nota sama bílinn og maðurinn keyrir konuna fyrst í vinnuna og keyrir síðan í sína vinnu? Það eru til flóknar reglur um hvernig eigi að skipta þessum ferðakostnaði á milli þeirra. Þetta er til að æra óstöðugan.

Eftir því sem við gerum kerfin réttlátari, þeim mun flóknari verða þau. Hverjum skyldi það nú nýtast? Ekki þeim sem hefur ekki þekkingu. Það er alveg á hreinu. Sá sem ekki vissi af bílastyrknum hérna þegar búið er að samþykkja hann nýtir hann að sjálfsögðu ekki. Hverjir skyldu það nú vera? Hverjir skyldu annars nýta hann? Þeir sem hafa efni á að hafa dýra endurskoðendur á sínum vegum. Það er hátekjufólkið. Lágtekjufólkið hefur oft ekki þekkingu. Þess vegna er það með lágar tekjur. Það hefur ekki þekkingu til að nýta sér flókin skattkerfi. Þar af leiðandi verða flókin skattkerfi óréttlát, þó að flækingin sé hugsuð til að gera þau réttlát.

Talið er að 7% þjóðarinnar sé ólæs í þeim skilningi að viðkomandi hafi aldrei lesið heila bók sér til gagns. Þetta sagði ég í gær. Sá hópur þjóðarinnar situr fyrir framan mjög flókin kerfi, sífellt flóknari og flóknari, bótakerfi og skattkerfi. Hann nýtir ekki bótakerfið og veit ekki að hann á rétt hér og þar. Þetta hef ég rekist á aftur og aftur. Hann nýtir ekki þá möguleika sem skattkerfið gefur ef það verður of flókið. Þannig að þetta réttlæti leiðir til flækingar. Flækingin leiðir til óréttlætis. Þessu þurfum við alltaf að gæta að.

Svo er annar kostnaður sem mér finnst ekki síður mikilvægur. Segjum að það séu hjón sem eiga tvö börn og konan er heima og ætlar að fara að vinna. Þá þarf hún að setja börnin á barnaheimili. Það kostar yfir 50.000 kr. á mánuði. Er það ekki starfskostnaður líka? Eigum við ekki að taka það inn í líka? Að sjálfsögðu. Þannig að við getum endalaust haldið áfram í réttlætisátt. Og alltaf minnkar skattstofninn, því það er búið að hola hann sem þýðir að við verðum að hækka prósentuna. Það kom ekki fram hérna áðan hver prósentan er í Noregi í skattinum.

Það sem gerist er að þegar skattstofninn minnkar þarf að hækka prósentuna. Við höfum haft þá stefnu að vera með brúttóskatt án þess að menn geti dregið frá allan mögulegan og ómögulegan kostnað. Það hefur verið stefnan hingað til. Ég er hlynntari því, vegna þess að ég held að einfaldara skattkerfi sé um leið réttlátt í þeim skilningi að þeir sem eiga erfitt með að skilja kerfin, skilji þau mögulega ef þau eru einföld. Ég hef meira að segja lagt til að það verði tekinn upp flatur tekjuskattur, 20%, sem yrði tekinn af þegar launin eru greidd og síðan ekki söguna meir, ekkert framtal og ekki neitt. Það mundi spara þjóðinni einn dag á ári a.m.k. í framtal.

Ég er ekki hér með að segja að það sé ekki hugsanlegt að taka þessa tillögu til velviljaðrar skoðunar, vegna þess að það er ákveðið kerfi í gangi í dag sem eru bílastyrkirnir, sem er nákvæmlega það sama. Þar þurfa menn að leggja fram reikninga, sýna hvað þeir keyrðu mikið o.s.frv., skriffinnska sem skattstjóri þarf að fara í gegnum og kostar vinnu báðum megin. Síðan er það spurningin: Eigum við að leyfa manni sem er á 5 millj. kr. jeppa og eyðir 20 lítrum á hundraði að afskrifa hann eða eitthvað svoleiðis? Hann yrði fljótur að fara upp í 520.000 kr. kostnað á ári. Eru engin efri mörk á því? Á einn maður að keyra í bíl til Keflavíkur t.d., menn sem slá sér saman um bíl, geta þá dregið minna frá skatti? Það er mjög algengt.

Þannig að ég vara við því að menn holi kerfin með réttlætisást að leiðarljósi, því þá verða kerfin flókin og þegar þau eru flókin verða þau óréttlát.