Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 29. október 2003, kl. 14:52:07 (909)

2003-10-29 14:52:07# 130. lþ. 17.11 fundur 32. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (ferðakostnaður) frv., MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 130. lþ.

[14:52]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst nú hv. þm. Pétur Blöndal gera svolítið lítið úr vitsmunum fólks, a.m.k. ákveðinni prósentutölu af borgurum landsins. Það má vel vera að flókin kerfi verði aðeins flóknari, ég ætla svo sem ekki að segja til um það. Mín reynsla var sú, þegar ég bjó og starfaði í Noregi, að þetta væri ekkert ýkja flókið. Fólk var meðvitað um hvaða réttindi það hefði varðandi þessar reglur, hélt utan um sína pappíra hvað það varðaði, skilaði þeim inn og ég varð aldrei var við það að þetta væri neitt voðalega mikið mál. Skattayfirvöld hafa nokkuð góða reynslu og tilfinningu fyrir því hvaða tölur menn eru að leggja fram miðað við hvar þeir búa og ég reikna með að þar sé þokkalegt eftirlit með þessu. Þannig að ég gat nú ekki séð að þetta væri svo hryllilega flókið.

Hv. þm. talaði um að ef þetta kæmi til þyrfti að auka skattbyrðina á móti. Ég er ekkert endilega sammála því, því ég held að samfélagið mundi á margan hátt spara þó nokkuð á svona reglum. Eins og ég benti á í máli mínu áðan þá er þegar búið að leggja út í töluverðan kostnað t.d. víða úti á landi varðandi ýmiss konar þjónustu, menntun og skóla. Það er búið að leggja mikla peninga í vegakerfið. Og það að fólk geti haldið áfram að búa á stöðunum í kringum þessi atvinnusvæði og að því sé gert það auðveldara að gera það, held ég að muni í raun og veru, þegar upp er staðið, spara hinu opinbera þó nokkuð mikil útgjöld.