Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2002

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 10:58:05 (925)

2003-10-30 10:58:05# 130. lþ. 18.1 fundur 109#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2002# (munnl. skýrsla), EMS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[10:58]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Ég hef örfáar athugasemdir eða ábendingar fram að færa varðandi þá ágætu skýrslu sem hér liggur fyrir. Í byrjun er rétt að vekja athygli á því sem sérstaklega vel er gert af hálfu Ríkisendurskoðunar og kemur fram í þeim verkefnavísi sem hér er birtur á bls. 35 í skýrslunni.

Fyrsti liður þar, Áritaðir ársreikningar, sýnir okkur að þar er stofnunin að ná verulegum árangri. Árið 2000 áritaði stofnunin 104 reikninga en árið 2002 eru þeir orðnir 328. Þessu til viðbótar fara endurskoðendur úti í bæ yfir um 100 ársreikninga og þannig er stutt í að stofnunin hafi yfirsýn yfir alla ársreikninga, en þarna liggja undir 500 stofnanir eða ársreikningar. Það er rétt að þakka það sem vel er gert í þessum efnum og það er augljóst að þarna er stofnunin á mjög góðri leið.

Ef við skoðum næsta lið fyrir neðan, Endurskoðunarbréfin, sem tengjast þessu sama, má segja að þar sé sama þróun. Þar hafa afköstin aukist frá árinu 2000, úr 105 upp í 269. Þannig er augljóst að menn eru á réttri leið og rétt að taka undir það sem fram hefur komið í máli nokkurra hv. þm., að mikilvægi þessarar stofnunar er mikið. Því er eðlilegt að við athugum hvort ekki sé vert að skoða nánar þá skýrslu sem hér er til umræðu og senda hana til nefndar. Ég tel ekki síður nauðsynlegt að komið verði í fastan farveg þeim stjórnsýsluúttektum sem stofnunin stendur fyrir. Því miður er tilviljunarkennt hvernig farið er með þær.

[11:00]

Mjög oft eru þetta viðamiklar skýrslur með mörgum ábendingum og jafnvel fullyrðingum um að ekki sé rétt staðið að málum. En eins og kom fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur er það tilviljunarkennt hvernig með þessar skýrslur er farið. Efh.- og viðskn. hefur á stundum tekið skýrslurnar fyrir og skilað ályktunum um þær með sérstökum áherslum. Fjárln. hefur einstaka sinnum komið að því að fjalla um þessar skýrslur en því miður ekki náð að skila nefndaráliti um þær. Það var ein skýrsla sem fjallað var sérstaklega um sem sneri að framkvæmdum á Alþingisreitnum og nefndin skoðaði sérstaklega en náði ekki samstöðu um niðurstöðu í málinu. Ég held þess vegna, herra forseti, að það sé mjög brýnt að forsætisnefnd skoði það alveg sérstaklega að koma þessu í fastan farveg þannig að það sé tryggt að allar úttektir Ríkisendurskoðunar fái farveg inn í nefndir þingsins hvort sem það eru fagnefndirnar sem fjalla um það svið sem úttektin fjallar um eða að efh.- og viðskn. eða fjárln. fari sérstaklega yfir þessar skýrslur og skili nefndarálitum ef nefndir telja ástæðu til.

Herra forseti. Ég vil vekja alveg sérstaka athygli á því sem tengist stjórnsýsluúttektunum í þessari um margt ágætu skýrslu. Hv. þm. Ögmundur Jónasson vék að því að það kæmi fram í skýrslunum, sérstaklega varðandi heilbrigðiskerfið, eins og segir hér orðrétt, með leyfi forseta, í skýrslunni:

,,Í sumum tilvikum hefur ríkisfé augljóslega verið notað á annan hátt en gert var ráð fyrir í samningum og þar þyrfti viðkomandi ráðuneyti að kanna lögvarin réttindi sín og leitast við að tryggja að farið sé eftir þeim skilyrðum sem ríkið setur þjónustuaðilum.`` Skömmu síðar, með leyfi forseta, segir hér: ,,Í enn öðrum tilvikum skortir nauðsynlega verkaskiptingu sem m.a. hefur valdið því að einingaverð vegna heilbrigðisþjónustu hefur hækkað mun meir en sem nemur almennum verðhækkunum.``

Hér er, herra forseti, um mjög alvarlega ábendingu að ræða að það sé ekki nægjanlega skýrt hvernig verkaskipting eigi sér stað í heilbrigðiskerfinu. Það er augljóst mál að þessar úttektir sem hér eru nefndar og áttu sér stað árið 2002 hefðu þurft frekari umfjöllun ýmist í heilbrn. eða fjárln., vegna þess að hér eru mjög alvarlegar ábendingar á ferðinni. Á bls. 19 í skýrslunni segir, og það er líklega alvarlegasta ábendingin sem fram kemur í skýrslunni, og afar athyglisvert og nauðsynlegt, herra forseti, að lesa það orðrétt upp. En hér segir, með leyfi forseta:

,,Ríkisendurskoðun leggur áherslu á að stjórnvöld marki sér skýra stefnu í heilbrigðismálum enda sé slíkt forsenda góðrar og markvissrar þjónustu í þessum málaflokki.``

Herra forseti. Hér segir með öðrum orðum, sem reyndar hefur verið bent á nokkrum sinnum m.a. í umræðum um fjárlög, að það skorti stefnu í heilbrigðismálum. Hér tekur Ríkisendurskoðun undir þær ábendingar sem margoft hafa komið fram að ef við ætlum okkur að ná almennilega utan um þennan málaflokk verða stjórnvöld að hafa skýra stefnu. Það er auðvitað mjög alvarlegt þegar Ríkisendurskoðun kemur með þá ábendingu að í þessum fjárfrekasta málaflokki þjóðarinnar skuli stjórnvöld skorta stefnu. Því vildi ég, herra forseti, vekja sérstaka athygli á því að Ríkisendurskoðun er með þessu að taka undir þau orð sem margoft hafa verið sögð að það er tímabært að stjórnvöld komi saman og móti stefnu í heilbrigðismálum. Ég vil þar af leiðandi taka sérstaklega undir þessa athugasemd Ríkisendurskoðunar.

Herra forseti. Það væri hægt að fjalla frekar um starfssvið Ríkissendurskoðunar og velta því fyrir sér t.d. hvernig þingnefndir hafa aðgang að Ríkisendurskoðun. Við getum auðvitað velt því upp t.d. í samhengi við vinnu fjárln., en eins og hv. þingmenn kannast við hefur það gerst að einum þingmanni í fjárln. hafa verið meinaðar upplýsingar sem hann sótti sérstaklega um. Það er umhugsunarefni hvort það sé ástæða til að fá Ríkisendurskoðun í liðið við það að kanna ýmsar upplýsingar sem ýmsir nefndarmenn í fjárln. telja nauðsynlegar til þess að við getum sinnt eftirlitshlutverki okkar í nefndinni. Þetta munum við að sjálfsögðu skoða, hvort Ríkisendurskoðun sé hugsanlega sá aðili sem ber að leita til og verður óskað eftir að Ríkisendurskoðun fari sérstaklega yfir þau mál sem við minnihlutamenn í fjárln. teljum að skorti upplýsingar um. Það er vissulega athugandi vegna þess að Ríkisendurskoðun heyrir undir þingið, er stofnun sem heyrir ekki undir framkvæmdarvaldið og það getur þess vegna verið brýnt að kalla hana til aðstoðar. Ég mun ekki á þessari stundu fullyrða hvort sú leið verði farin en sú leið hlýtur að sjálfsögðu að vera til skoðunar því að Ríkisendurskoðun hefur margþættu hlutverki að gegna og hefur á stundum komið með góðar ábendingar. En því er nú verr og miður eins og ég nefndi hér áðan, herra forseti, þá skortir mjög á það að þær ábendingar fari í fastan farveg og þeim sé fylgt eftir. Við munum að sjálfsögðu halda á lofti þessari ábendingu Ríkisendurskoðunar nú við vinnu fjárlaganna vegna þess að það er auðvitað mjög brýnt í þessum fjárfrekasta málaflokki að stjórnvöld móti sér stefnu.