Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2002

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 11:06:20 (926)

2003-10-30 11:06:20# 130. lþ. 18.1 fundur 109#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2002# (munnl. skýrsla), HBl
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[11:06]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það hafa komið nokkrar athugasemdir. Þær athugasemdir sem hv. 2. þm. Reykv. s., Jóhanna Sigurðardóttir bar fram eru ekki nýjar af nálinni heldur hafa þær oft heyrst áður og að minni hyggju að sumu leyti byggðar á misskilningi. Ég hygg að alþingismönnum sé öllum ljóst að sú skýrsla sem hér er lögð fram af Ríkisendurskoðun er lögð fram til þess að einstakir þingmenn geti farið yfir hana og dregið lærdóm af henni og gert athugasemdir ef þeim sýnist svo. Á hinn bóginn á það við um þessa skýrslu, einnig um aðrar skýrslur sem Ríkisendurskoðun sendir frá sér, að þingmönnum er heimilt að taka þær upp eða leggja fram ósk um það í hvaða nefnd sem er og fjallar um efni skýrslunnar að hún sé þar rædd, endurskoðunarúttekt og þar fram eftir götunum. Það þarf ekki atbeina Alþingis til heldur er það tekið skýrt fram í þingsköpum að nefnd geti tekið upp mál af sjálfsdáðum með því að einhver nefndarmaður í nefndinni leggi það til og taki málið upp. Að þessu leyti byggjast skoðanir hv. þm. á misskilningi að minni hyggju. Ef við erum t.d. að ræða um sérstaka úttekt endurskoðunar á skýrslu sem fjallar um heilbrigðismál, þá hlyti að verða að taka það mál upp sérstaklega en ekki í tengslum við þá skýrslu sem hér liggur fyrir og einungis lýtur að störfum Ríkisendurskoðunar, ekki að einstökum skýrslum sem Ríkisendurskoðun hefur sent frá sér. Ég hygg að það sé nauðsynlegt að hafa þetta í huga og rugla því ekki saman.

Ég verð einnig að segja að ég er ósammála hv. þm. að rétt sé að Ríkisendurskoðun stefni að því að öll verk sem hún tekur sér fyrir hendur skuli unnin af opinberum starfsmönnum. Ég held að það sé nauðsynlegt og þarft að endurskoðendur víðs vegar um landið komi að endurskoðun á einstökum þáttum ríkisins. Ég vil jafnframt minna hv. þm. á að margir af þeim endurskoðendum sem ráðnir hafa verið af Ríkisendurskoðun til þess að fara yfir reikninga einstakra stofnana eru einmitt starfandi úti á landi. Með því að dreifa þannig verkefnum út fyrir veggi stofnunar sinnar stuðlar ríkisendurskoðandi með þessum vinnubrögðum að því að færa störf ríkisins út á land. Ég held að það sé nauðsynlegt að hafa þetta í huga og held að þetta sé einmitt sjónarmið sem margir þingmenn landsbyggðarinnar hafa haldið fram, að stofnanir ríkisins eigi með þessum hætti að styrkja það að sérfræðiþekking geti orðið til á landsbyggðinni og styrkja einnig með þessum hætti að fyrirtæki eins og endurskoðunarstofur hafi fjárhagslegan grundvöll víðar en í Reykjavík. Ég get því ekki fallist á að þær athugsemdir sem hv. þm. vék að í þessu efni eigi við rök að styðjast.

Hið sama á að vissu leyti við um það sem hv. 7. þm. Norðuraust., Einar Már Sigurðarson sagði hér áðan. Það hefur verið svo um áratugi, ég hygg kannski síðan Alþingi var endurreist, að einstakir þingmenn hafa tekið upp einstaka þætti ef þeim þykir nauðsynlegt í sambandi við fjárreiður ríkisins og einstakra stofnana. Það hefur ekki verið bundið við það að Ríkisendurskoðun hafi hverju sinni skrifað um það skýrslu, heldur hafa slíkar umræður oft vaknað í tengslum við fjáraukalög eða í tengslum við fjárlögin sjálf. Það er líka svo að fjárln. getur óskað eftir upplýsingum frá Ríkisendurskoðun um einstök atriði og mér er ekki kunnugt um að Ríkisendurskoðun hafi synjað um að veita slíkar upplýsingar.

Ég hygg að það sé raunar líka tilfellið um einstakar þingnefndir að þær hafa tekið sér það fyrir hendur að eigin frumkvæði, þó að það sé ekki fjárln., að fjalla um fjárlagabeiðnir einstakra ríkisstofnana og leggja fram fyrirspurnir um þær og talið að það rúmist innan þingskapanna. Ekki hafa verið gerðar athugasemdir við það þó að ég hafi að vísu stundum efast um að það sé réttur skilningur en það hefur ekki verið við því amast. Þannig að þær ábendingar sem hv. þingmenn hafa komið fram með, þingmenn Samf., bæði hv. 7. þm. Norðaust., Einar Már Sigurðarson, og hv. 2. þm. Reykv. s., Jóhanna Sigurðardóttir, um að þingnefndir hafi ekki tök á því að koma að fjármálum einstakra stofnana eiga ekki við rök að styðjast. Saga þingsins sýnir þvert á móti að þingmenn hafa verið ófeimnir við að fylgja eftir skýrslum Ríkisendurskoðunar ef þeim sýnist svo og hafa gert það bæði í nefndum og eins á Alþingi. Á hinn bóginn er í þessari skýrslu ekkert sérstakt tilefni til tveggja umræðna eins og hún liggur fyrir, enda hafa ekki komið fram þær athugasemdir við skýrsluna sem gefa tilefni til að hlé sé gert á þessari umræðu nú til þess að vísa málinu til nefndar. Ég vil minna hv. þm. á að óþarfi er að tvær umræður séu um mál til þess að nefnd taki málið til athugunar, það er auðvitað hægt að gera hlé á umræðunni. Það hefur ekki komið fram beiðni um það. Þess vegna lít ég svo á að þingmenn séu sammála mér um að ekki sé ástæða til að vísa þessari skýrslu til nefndar eins og umræður hér hafa fallið.

Vegna þess sem hv. 9. þm. Reykv. s., Ögmundur Jónasson, sagði vil ég einungis taka fram að á bls. 16--18 í skýrslunni er skilgreint hvað felst í áhættuendurskoðun. Ég sé ekki ástæðu til að fara djúpt í það. Ég get, með leyfi hæstv. forseta, dregið fram tvo kafla úr þeirri skilgreiningu ef það skyldi skýra fyrir hv. þingmönnum hvað um er að ræða. Hér segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Áhættustjórnun er kerfisbundið ferli þar sem leitast er við að greina, meta og bregðast á skynsamlegan og hagkvæman hátt við þeirri áhættu sem jafnan felst í starfsumhverfi og rekstri stofnana og fyrirtækja. Það sem einkennir flesta áhættuþætti er óvissan um þær afleiðingar sem þeir hafa í för með sér. Vel má hugsa sér að sami þátturinn skipti eitt fyrirtæki litlu eða engu máli, veiti öðru fyrirtæki ný sóknarfæri og möguleika til að efla starfsemi sína en valdi þriðja fyrirtækinu alvarlegum erfiðleikum og verði jafnvel til að skaða rekstur þess eða ímynd. Dæmi um slíkt eru breyttir stjórnunarhættir, eða ýmiss konar tækninýjungar sem ætlað er að bæta reksturinn.``

[11:15]

Á öðrum stað segir á bls. 17, með leyfi hæstv. forseta:

,,Að dómi Ríkisendurskoðunar getur áhættustjórnun hjálpað opinberum aðilum með margvíslegum hætti. Í fyrsta lagi skýrir hún tengsl áhættu og ábyrgðar í upphafi verks með því að leggja áherslu á forkönnun (þ.e. hagkvæmni- og matsáætlun), með því að beina áhættunni þangað sem auðveldast er að fást við hana og með því að skýra hver ber ábyrgð á einstökum áhættuþáttum. Í öðru lagi felur hún í sér mat á veikleikum, hvort einstök ferli skili þeim árangri sem að er stefnt og hvar úbóta er þörf. Í þriðja lagi hjálpar hún til við að greina hugsanleg vandamál og stuðla að því að eignir og mannauður nýtist þar sem þeirra er mest þörf. Í fjórða lagi getur hún hjálpað til við að meta þær afleiðingar sem breytt viðhorf verkefna eða tækni hefur í för með sér og dregið fram hvernig málum skuli hagað svo að unnt sé að veita góða þjónustu. Að lokum getur hún orðið til þess að bæta þjónustu og gert hana skilvirkari með ýmiss konar ráðstöfunum til að bregðast við truflunum, töfum, tæknilegum örðugleikum eða takmörkunum á að veita þjónustu og vandkvæðum við að sinna aukinni eftirspurn.``

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta. Eins og við sjáum á þessum stutta upplestri eru markmiðin skýr með því sem kallað hefur verið áhættustjórnun og eru að sumu leyti auðvitað staðfesting á þeim vinnubrögðum sem endurskoðunarvinnan á að fela í sér. En auðvitað er alltaf gott og nauðsynlegt að setja hlutina nákvæmlega niður fyrir sér til þess að vinnan verði markvissari og árangur meiri.

Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð.