Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 15:31:27 (968)

2003-10-30 15:31:27# 130. lþ. 18.9 fundur 38. mál: #A almenn hegningarlög# (vændi) frv., GÖg (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[15:31]

Guðrún Ögmundsdóttir (andsvar):

Frú forseti. Örlítið andsvar við ræðu hv. þm. Ástu Möller.

Ég vona að þingmenn hafi tekið eftir því að umræðan hérna hefur ekki verið um það hvort sjálfstæðiskonur væru með eða ekki að öðru leyti en því að ég nefndi nákvæmlega í fyrstu ræðu minni að þátt tækju allar konur þingsins utan sjálfstæðiskonur en að ég vissi líka af óánægju í röðum þeirra. Ég sagðist hins vegar ekki ætla að ræða það frekar eða strá salti í þau sár. Mér finnst heldur engin ástæða til þess.

Mér finnst líka afar mikilvægt að við berum fulla virðingu fyrir því ef fólk hefur efasemdir í þessu máli. Margir eru búnir að fara í gegnum ýmsa fasa í því þannig að ég ber fulla virðingu fyrir afstöðu sem er ekki samhljóma minni.

Ég játa það líka að það er mjög ánægjulegt að hafa hv. þm. Ástu Möller hér á þingi og við finnum það núna að hennar hefur verið saknað. Það er mjög gott. Og það er ákveðin systrasamstaða hér, það er alveg hárrétt hjá þingmanninum. Hún verður vonandi áfram til staðar í öðrum málum þó að það hafi kannski ekki alveg gerst hér.

Eins og ég segi ber ég fulla virðingu fyrir þessum efasemdum og við vitum vel að fólk getur skipt um skoðun. Hv. þm. Jónína Bjartmarz lýsti því af hverju hún skipti um skoðun, það var þegar hún sá kvikmyndina Lilya 4-ever. Þetta er allt breytingum undirorpið. Vændisskýrslan kom út árið 2000 og nú er 2003. Mjög margt hefur gerst á þessum tíma.

Ég tek ekki til mín að hafa átt þátt í því að vera með lúaleg brögð gagnvart sjálfstæðiskonum, af og frá.