Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 15:36:27 (971)

2003-10-30 15:36:27# 130. lþ. 18.9 fundur 38. mál: #A almenn hegningarlög# (vændi) frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[15:36]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði ekki tekið upp þetta mál sem snýr að því hvernig málið hófst nema vegna þess að það var látið líta út sem það væri aðalatriði í byrjun. (Gripið fram í: Hvenær?) Og í umræðunni í fjölmiðlum --- eins og í Fréttablaðinu í dag komu skilaboðin algjörlega skýrt, hvort sem þau voru frá þessum konum eða hvort það var tilbúningur fréttamanna, það er ekki nokkur leið fyrir hinn almenna borgara að átta sig á hvaðan hlutirnir koma. Það er mjög auðvelt að draga þá ályktun að þetta hafi verið skilaboðin frá konunum sem kynntu frumvarpið í byrjun.

Spurningin var ekki um það hvort við hefðum fengið að vera með, heldur miklu frekar að það var dregið fram að við værum ekki með, og það væri sérstakt athugunarefni.

Það er hins vegar alveg rétt að ef t.d. ég hefði verið spurð um þetta mál sem ég hafði ekki afstöðu til hefði skoðun mín verið sú sem ég hef hér lýst.

Varðandi samlíkinguna á vændi og eiturlyfjum er það svo, eins og hefur komið fram í þeirri rannsókn sem ég vísaði til í dag, að eiturlyf eru oft undirrót þess að fólk leiðist út í vændi. Það er því hægt að draga þá samlíkingu þarna á milli að það eigi að refsa báðum aðilum ef út í það er farið.