Vernd trúnaðarsambands fjölmiðla og heimildarmanna þeirra o.fl.

Fimmtudaginn 30. október 2003, kl. 16:58:18 (982)

2003-10-30 16:58:18# 130. lþ. 18.6 fundur 41. mál: #A vernd trúnaðarsambands fjölmiðla og heimildarmanna þeirra o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., 42. mál: #A bótaréttur höfunda og heimildarmanna# frv., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 130. lþ.

[16:58]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég vil aðeins leggja örfá orð inn í þessa umræðu og byrja á að þakka hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur fyrir afskaplega vandaðan undirbúning að þessu frv. sem lýtur að því að breyta lögum til verndar trúnaðarsambandi fjölmiðlamanna og heimildarmanna þeirra sem og til verndar starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga vegna upplýsingagjafar í þágu almannaheilla. Í sjálfu sér er ekki miklu við að bæta sem hér hefur verið sagt um þetta mál og fram kom í framsöguræðu hv. 1. flm. en ég freistaðist til að skoða málið dálítið út frá lýðræðishugtakinu og ekki síst út frá þessari hefðbundnu þrískiptingu valds, löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds. Og síðan það sem kannski á að leika sem ferskir vindar um það sem stundum hefur verið kallað fjórða valdið, þ.e. fjölmiðlarnir og fjölmiðlun sem er afskaplega mikilvægt fyrirbrigði í allri lýðræðislegri umræðu, að upplýsingastreymi sé opið og upplýsingar berist til almennings þannig að almenningur geti tekið þátt í hinni lýðræðislegu umræðu. Það er í rauninni grundvöllur lýðræðisins sem við viljum öll verja og búa við.

[17:00]

Við þekkjum líka dæmi þess frá þeim ríkjum þar sem frelsi fjölmiðla er ekki til staðar. Við vitum um fólk sem hefur látið líf sitt til þess að reyna að koma upplýsingum á framfæri. Við þekkjum dæmi um að ritskoðun eigi sér stað og hvaða áhrif það hefur á alla samfélagsþróun í þeim ríkjum. Ég nefni þetta til þess að undirstrika hversu mikilvægir fjölmiðlar eru í lýðræðisríki og í réttarríki. Við þekkjum það meira að segja í störfum hv. Alþingis þar sem oft spinnast umræður, utandagskrárumræður, fyrirspurnir og eru jafnvel þingmál flutt vegna fréttaflutnings í fjölmiðlum á Íslandi. Því má segja að við búum svo vel að hafa hér nokkuð frjálsa fjölmiðlun þó að sjálfsagt megi endalaust deila um hversu frjáls hún er og þar fram eftir götunum.

Til þess að fjölmiðlar geti starfað þurfa þeir að búa við það lagaumhverfi að þeir geti starfað og þeir geti sinnt þeirri skyldu sinni að vera fjölmiðlar, þ.e. að dreifa upplýsingum og upplýsa hlustendur sína, áhorfendur eða lesendur. Einn grundvallarþáttur fjölmiðlastarfsemi er einmitt sá sem þetta frv. lýtur að, þ.e. að vernda samband fréttamanns og heimildarmanns. Eins og hér hefur verið rakið í dag þá myndast oft þær aðstæður að erfitt getur verið fyrir einstaklinga að gefa sig fram gagnvart vinnuveitendum sínum eða nánasta umhverfi. Hann treystir á trúnaðarsamband við fjölmiðlamenn.

Ég tel það vera kost við þetta frv. að það eru þó settar takmarkanir, eins og fram kemur bæði í 1. og 2. gr. frv. Þessi heimildarvörn er því ekki takmarkalaus. Það fer dálítið eftir eðli málsins og hvert hugsanlegt refsiákvæði kann að fylgja málinu. Það er sem sagt ekki takmarkalaust. Ég tel það vera eðlilegt. Og hvað varðar opinbera starfsmenn þá að sjálfsögðu ef þeir telja að um almennaheill sé að ræða og að verið sé að ganga á almannaheill og þeir vilji því hugsanlega koma upplýsingum á framfæri sem þeir telja eðlilegar vegna almannaheilla þá er eðlilegt að þeir hafi möguleika til þess.

En það er hins vegar vandmeðfarið. Það er afskaplega vandmeðfarið. Ég vil þess vegna einmitt benda á annað frv. sem liggur fyrir hv. Alþingi. Það er frv. til laga um siðferði opinberra starfsmanna. Ég tel afskaplega mikilvægt að í opinberum stofnunum, eins og reyndar öllum fyrirtækjum, sé mikilvægt að menn komi sér upp ákveðnum siðareglum og ákveðnu ferli til þess að bregðast við þegar þær aðstæður koma upp að opinber starfsmaður eða annar starfsmaður telur að verið sé að brjóta gegn almannaheill innan stofnunar, þ.e. hvernig eigi að bregðast við því. Ég tel afskaplega mikilvægt að benda á þetta um leið og frv. það sem hér er til umræðu er á dagskrá, þ.e. mikilvægi þess að einstakar stofnanir taki upp slík vinnubrögð þannig að ferlið um meðferð upplýsinga, jafnvel trúnaðarupplýsinga, sé alveg ljóst innan stofnunar.

Aðalatriði í frv. er þó að þetta trúnaðarsamband sé virt og að skapaður sé eðlilegur grundvöllur og starfsskilyrði fyrir frjálsa, opinskáa fjölmiðlun sem er svo mikilvæg fyrir lýðræðið.

Herra forseti. Ég vil að lokum einnig horfa á hina hliðina á þessu máli, þ.e. ábyrgðina. Frelsi fylgir nefnilega gífurlega mikil ábyrgð. Þá hlýtur það jafnframt að vera hugsun hv. flutningsmanna og þeirra sem styðja frv. --- ég tek fram að ég gæti vel hugsað mér að styðja frv. á borð við þetta --- en ég vil líka skírskota til ábyrgðar þeirra sem með fjölmiðlavaldið fara. Það er gífurlega mikið vald og getur haft mikil áhrif á samfélagið í heild sinni hvernig með fréttir er farið í fjölmiðlum. Þá þurfum við líka að hugsa um það hvernig fjölmiðlar eru reknir, hver tilgangur þeirra er. Í sumum tilvikum er markmið fjölmiðla einungis það að færa eigendum sínum sem mestan hagnað og við þekkjum það sérstaklega úr erlendri pressu hvað fjölmiðlar geta gengið langt í því að slá upp fréttum, jafnvel á afskaplega hæpnum forsendum. Á ensku er sagt: ,,Let the bastards deny it.`` Í sumum tilvikum tel ég að erlendir fjölmiðlungar, hin svokallaða gula pessa í sumum tilvikum, hafi gengið allt of langt í að misnota þetta frelsi og hafi vikið sér undan allri þeirri ábyrgð sem fylgir því að fara með fjölmiðlavald. Ég tel afskaplega mikilvægt að fjölmiðlafólk, einstakar fréttastofur, einstakir fjölmiðlamenn komi sér upp slíkum siðareglum. Til er siðanefnd blaðamanna en ég tel mikilvægt að hver vinnustaður fjölmiðlamanna hafi sterkar siðferðisreglur og siðferðisviðmið til þess að starfa eftir, einmitt til þess að minna fjölmiðlamenn á að þeir bera gífurlega mikla ábyrgð.

Herra forseti. Í öllum megindráttum líst mér vel á frv. og get vel hugsað mér að styðja það einmitt í ljósi þess að fjölmiðlar eru mikilvægir fyrir lýðræðið í okkar landi.