Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 15:41:09 (1030)

2003-11-03 15:41:09# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[15:41]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það gildir ekki nákvæmlega það sama um Landsvirkjun og um Símann. Landsvirkjun er ekki í sama formi og Síminn er nú. Landsvirkjun er sameign þriggja aðila, ríkis, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar. Það segir í lögum, eins og ég man þau lög, um það fyrirtæki að breytingar verði ekki gerðar í þeim efnum nema með samþykki allra eigenda fyrirtækisins, hvaða breytingar sem nafni nefna má.

Hins vegar er það svo í þessu tilviki að meginreglan, eins og kom fram í hinni örstuttu framsöguræðu, er samkvæmt reglugerð um Stjórnarráð Íslands sú að fyrirsvar eignarhalds sem byggist til að mynda á hlutafélagalögum liggur hjá fjmrn. En í þessu tilviki liggur fyrirsvar gagnvart Landsvirkjun hjá iðnrn. samkvæmt sérstökum lögum um það efni í samræmi við þá samninga sem í öndverðu voru gerðir um fyrirtækið árið 1965.