Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 15:42:30 (1031)

2003-11-03 15:42:30# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[15:42]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svarið og fyrir að upplýsa þann sem hér stendur um að Reykjavíkurborg og Akureyrarbær eigi hluti í Landsvirkjun. Það er mér þó kunnugt enda fulltrúi Reykjavíkurborgar í stjórn fyrirtækisins, eins og raunar hæstv. forsrh. sjálfur á árum áður.

Ástæða þess að ég vildi spyrja að þessu er að ég er þeirrar skoðunar og vil koma því á framfæri við hæstv. forsrh. að þær breytingar sem hafa orðið á lagaumhverfi í orkuiðnaðinum á raforkumarkaði, það samkeppnisumhverfi sem verið er að innleiða þar, geri það að verkum að rök fyrir sérákvæði um Landsvirkjun --- ákvæði um að sameignarfélagið sé falið iðnrn.- og viðskrn., eðlilega kannski vegna þess að það hafði stöðu einokunarfyrirtækis á markaði --- eigi í raun ekki lengur við, ekki frekar en þau eiga við um Landssímann eftir þær breytingar sem orðið hafa á síðustu árum á fjarskiptamarkaði. Þess vegna væri vert að skoða með sama hætti hvort umsýsla eignarhalds í Landsvirkjun ætti ekki að vera með sama hætti og Landssímans, leitað eftir samþykki meðeiganda þar um og lögum sem í gildi eru um Landsvirkjun breytt að þessu leyti.