Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 16:05:19 (1034)

2003-11-03 16:05:19# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[16:05]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýt nú að ítreka að hér er eingöngu um formbreytingu að ræða og því var ekki efni til þess fyrir mig að halda langa framsöguræðu um annað efni. Ég hef hins vegar ekkert á móti því að menn fari aðeins víðar um í umræðunum og noti tækifærið til þess, mér finnst það í sjálfu sér ekkert óeðlilegt, en það var ekkert tilefni til þess fyrir mig að hefja þá umræðu miðað við tilefnið hér.

Einnig vil ég nefna að sú ályktun er röng sem hv. þm. dregur að þessi breyting sé gerð vegna þess að nú ætli menn sér að fara í annan áfanga á sölu Símans. Ég minni á að hæstv. samgrh. hefur áður látið orð falla hér í þinginu. Ég minnist þess að hann gerði það a.m.k. sl. vor, að hann teldi eðlilegt að breyting af þessu tagi væri framkvæmd. Og það hefur hann einnig gert annars staðar en hér, einnig utan þings, alveg óháð því að menn væru að fara í sölu á Símanum.

Hitt er annað mál fyrst hv. þm. nefnir það að þá virðist vera hagstæðara umhverfi til sölu á Símanum en var síðast þegar þau mál voru á döfinni fyrir einu til tveimur árum síðan. En það er erfitt að gera mönnum til hæfis í þeim efnum eins og kunnugt er. Því var gjarnan haldið á lofti að menn vildu láta eignir ríkisins fyrir slikk fyrir hina og þessa velunnara og vini seljendanna, eins og það var gjarnan orðað með hæfilegri smekkvísi, en síðan þegar ríkisstjórnin sagði að þau tilboð sem fyrirtæki hefðu gert í Símann væru ekki nógu há og þess vegna vildi ríkisstjórnin ekki selja, þá var sagt að allt söluferlið hefði mistekist og ríkisstjórnin farið hrapallega út úr því o.s.frv., o.s.frv.

Einnig minni ég á það að jafnvel þó að hlutir séu í einkaeign, þá getur ríkið jafnað þætti. Það gerum við með olíudreifingu þótt það séu þrjú olíufélög í einkaeign sem reki hana. Við gerum það út af fyrir sig gagnvart rafmagni og hitun og það væri hægt óháð því hver ætti veiturnar o.s.frv. Þannig að allir slíkir möguleikar eru áfram fyrir hendi vilji ríkisvaldið, þingið, jafna stöðu landsmanna eftir því hvar þeir búa í landinu.