Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 16:11:15 (1037)

2003-11-03 16:11:15# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[16:11]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hæstv. forsrh. sé nú nokkur vorkunn. Það er auðvitað alltaf gaman þegar áhugaverðir atburðir gerast í samfélaginu og það er eðlilegt að mönnum séu þeir ofarlega í huga. Ég veit að vísu ekki hvort þingsköpin bjóða upp á þann möguleika að hæstv. forsrh. biðji um utandagskrárumræðu og til svara verði hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Ég held að það hljóti að vera þingtæknilega mögulegt og væri áhugavert ef brotið yrði blað í þingsögunni í þeim efnum.

Það sem ég vil að síðustu leggja sérstaka áherslu á hér í svari mínu og hæstv. forsrh. kom ekki inn á, er að þetta snýst um meira en bara jöfnun á kostnaði þegar við erum að tala um framtíðina í fjarskiptaumhverfinu á Íslandi ef Landssíminn verður einkavæddur. Það er ekki sá þáttur málsins sem ræðumaður hefur mestar áhyggjur af. Það er tiltölulega gagnsætt og auðvelt að glíma við á hverjum tíma ef verið er að okra á tilteknum hluta landsmanna hvað varðar gjaldskrá fyrir þjónustu og tök til þess í gegnum fjarskiptalög og fleira að hafa þar hemil á. Það sem er miklu stærri þáttur þessa máls og alvarlegri er hin tæknilega uppbygging. Það eru ákvarðanir í rekstri fyrirtækisins inn í framtíðina sem verða teknar í nýju umhverfi og í nýju samhengi. Og það er þannig sem mismunurinn mun læðast aftan að mönnum ef farið verður út á þessa braut. Það er reynslan annars staðar frá og skammsýni hinna nýju eigenda reynist ævintýraleg í þeim efnum, samanber reynsluna frá einkavæðingu járnbrauta, vatnsveitna og fjarskiptafyrirtækja þar sem skammtímagróðasjónarmiðin ráða öllu, að draga nóga peninga út úr fyrirtækjunum. Öryggismálin eru látin sitja á hakanum, langtímafjárfestingar mæta afgangi og infrastrúktúrinn grotnar niður. Þetta er ástæða þess að menn eru núna að þjóðnýta á nýjan leik orkuveitur, járnbrautakerfi og annað í þeim dúr. Og það er þannig ástand sem við viljum ekki varðandi íslenska Landssímann.