Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 16:22:14 (1042)

2003-11-03 16:22:14# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[16:22]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði í ræðu sinni prýðilega grein fyrir því hvers vegna hér er lögð til sú breyting sem frv. felur í sér, þ.e. fjarskiptaráðherrann haldi ekki á hlutabréfi í stærsta símafyrirtæki landsins. Hann fór yfir þau mörgu mikilvægu mál sem fjarskiptaráðherrann þarf að fjalla um og setja reglur um, svo sem eins og þjónustu og samkeppnisaðstæður ýmsar. Mér heyrðist því að ekki væri nú langt í að hv. þm. gæti verið sammála ríkisstjórninni um þessa breytingu.

Hins vegar kom hv. þm. inn á atriði sem er óháð því að hver fer með hlutabréfið í Landssímanum, þ.e. hvort selja eigi grunnkerfið í Símanum með eða ekki. Um þetta höfum við rætt oft í sölum þingsins og við höfum komist að þeirri niðurstöðu í ríkisstjórninni að það beri að fara sömu leið og allar þjóðir Evrópu sem hafa einkavætt símana hafa farið, þ.e. að selja grunnnetið einnig með. Hvers vegna? Jú, það er vegna þess m.a. að á Íslandi er komin samkeppni í þjónustu í grunnkerfinu.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ber að sínu leyti væntanlega ábyrgð á þeirri samkeppni í gegnum stuðning sinn við R-listann sem hefur með Línu.Neti byggt upp ljósleiðarakerfi á höfuðborgarsvæðinu og tekið þátt í samstarfi innan fyrirtækis með Landsvirkjun sem hefur lagt ljósleiðara yfir hálendið. Það er því kominn vísir að þessari samkeppni hvað varðar grunnnetið og það er hlutverk fjarskiptaráðherrans að setja um þetta reglur.

Ég vil vekja athygli á því sem er nauðsynlegt að vekja athygli á, þ.e. að á Íslandi eru GSM-símar notaðir meira en víða annars staðar í nágrannalöndum og internetnotkun er meiri en nokkurs staðar annars staðar í veröldinni. Það er vegna þess að við höfum nú þegar byggt kerfið mjög myndarlega upp þó víða sé þörf á uppbyggingu áfram.