Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 16:46:05 (1050)

2003-11-03 16:46:05# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[16:46]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin ætlar að selja. Það liggur fyrir að einkavæðingarnefnd er á fullu við að undirbúa söluna. Þá verður manni á að hugsa: Til hvers þá þessa formbreytingu? Er hæstv. samgrh. ekki treystandi fyrir því að skrifa undir samningana? Hvaða vandamál eru þar til staðar ef menn ætla hvort sem er að selja sem allra fyrst? Þá duga ekki röksemdir hæstv. samgrh. um að hann sé eftirlitsaðili. Hann verður eftirlitsaðili með einhverjum öðrum en sjálfum sér þegar búið er að selja. Þannig tekur því varla að standa í þessari breytingu ef salan er á næstu grösum, nema menn treysti ekki hæstv. samgrh. fyrir því að klára þetta dæmi. Auðvitað gekk hæstv. ráðherra fremur illa með það þegar hann gerði tilraun til að koma Símanum á annarra hendur fyrir nokkru.

Við sitjum uppi með það að sumum finnst að fremur illa hafi gengið að stjórna Símanum. Mönnum finnst það af ýmsum ástæðum. Það er t.d. ekki einleikið að hafa þrjá forstjóra á launum hjá einu fyrirtæki. Fleira mætti til telja sem hefur ekki gengið alveg nógu vel.

Formbreytingin sem hér er á ferðinni er að mínu viti einskis virði nema í henni megi finna þá bjartsýni sem hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson leyfði sér áðan, að menn ætli þá að eiga fyrirtækið áfram. Þar með er náttúrlega í sjálfu sér eðlilegra að fjmrh. fari með þetta vald og hæstv. samgrh. hafi eftirlit með fyrirtækinu og sé ekki að forminu til handhafi eignarhaldsins. En til þess eru nú refirnir skornir að taka fjárforræðið af hæstv. samgrh. Ég hefði haldið að það væri betra að fá að heyra aðeins betur í honum um hvort hann er ánægður með þetta. Er hann kannski sannfærður um að hann muni hafa eftirlit með þessu um langa tíð áður en sala fer fram? Þá væri þetta vitanlega bráðnauðsynlegt. Ég skil það mjög vel. En hitt skil ég ekki að það liggi á með þessa formbreytingu ef salan stendur fyrir dyrum.

Það er mikið umhugsunarefni að Framsfl., eins og lýst var fyrr í dag, var með miklar yfirlýsingar um að hér skyldi aldrei gengin sú gata sem sjálfstæðismenn hafa marglýst yfir að eigi að ganga, að selja Símann í heilu lagi. Ég verð að segja það fyrir mig að mér finnst fráleitt að menn geri þá tilraun. Ég tel að menn eigi að fara hægt í þetta mál. Það er nefnilega annað mál á næstu grösum sem má segja að sé af svipuðu tagi. Hér stendur til að breyta um rekstur á raforkukerfinu í landinu. Þar hafa menn, eftir því sem ég veit best, tekið þær ákvarðanir að grunnnetið skuli ekki í eigu fyrirtækjanna sem keppa á markaðnum heldur skuli það skilið frá. Ég er mjög sáttur við þá grunnhugmynd þó ég hafi alla fyrirvara á þar sem við höfum ekki fengið að sjá hvernig að því verður staðið. Ég tel að sú grunnhugsun eigi líka að vera við lýði í fjarskiptunum og Símanum.

Úti á landi hafa menn miklar áhyggjur af því að grunnnetið verði ekki skilið frá. Þar eru líka þeir sem hafa vit á, t.d. þeir sem vinna hjá Símanum. Þeir hafa verið með yfirlýsingar um að erfitt verði að fá fram alls konar viðbætur og framkvæmdir á strjálbýlum stöðum eigi þetta að vera eins og í stefnir, að einkafyrirtæki eigi að meta málið út frá fjárhagslegum hagsmunum. Þeir óttast að ekki verði litið á þetta sem þjónustu við alla landsmenn eins og þegar hið opinbera á hlut að máli, eins og var hjá Pósti og síma og verið hefur hjá Símanum eftir að skilið var í sundur milli fyrirtækjanna.

Hæstv. samgrh. hélt mikla hólræðu um það áðan hvað þetta hefði gengið rosalega vel. Hvergi lægri gjöld. Hvað liggur þá á? Ekki nokkurn skapaðan hlut. Eigum við ekki að gera eina tilraun í einu? Er það ekki nóg? Ég held að þessi tilraun með raforkukerfið geti sýnt okkur hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. Það er mikið umrót á öllum þessum þáttum samfélagsins. Þannig hefur það verið undanfarin ár og verður þannig fram undan. Ég tel fulla ástæðu til að fara sér frekar hægt hvað þetta mál varðar. Ég held að það væri öllum til góðs.

Ég óttast hins vegar að hluti af því að Framsfl. gleypti stefnuna sína í samningnum um myndun ríkisstjórnar sé að nota eigi þessa peninga í skattalækkanir ríkisstjórnarinnar undir lok kjörtímabilsins og engin önnur leið sé til að standa við stóru loforðin en að ná inn peningum fyrir einkavæðingu Símans.

Hvað hefur hæstv. ríkisstjórn haft sem skotsilfur á undanförnum árum til að deila út? Það eru peningar sem hafa komið inn fyrir eigur ríkisins. Þeir hafa svo sannarlega verið notaðir til að auglýsa mátt og mikilleika ríkisstjórnarinnar þegar það hefur þótt henta. Ég held að það sé óhætt að segja um þessa ríkisstjórn að sjaldan bregður mey vana sínum. Hún mun halda þessu áfram, selja eigur ríkisins og reyna að skreyta sig með því þegar líður að kosningum. Hún mun skreyta sig með þeim fjármunum sem þar hafa fengist.

Mér finnst að framsóknarmenn megi við þessa umræðu útskýra fyrir hv. Alþingi hvernig þeir sjá fyrir sér að tryggja megi uppbyggingu á samskiptakerfum úti á landi og í öllu landinu svipað og verið hefur á undanförnum árum. Þá skilar okkur kannski eitthvað áfram í þessari umræðu. Það eru verulegar hættur í þessu máli. Ég tel að það sé ekki einleikið ef mönnum liggur svona á.

Ég vil taka skýrt fram að ég get ósköp vel skilið að þessi formbreyting eigi sér stað ef menn fresta þessu máli og gefa sér tíma til að sjá hvernig það sem ég vil alla vega að verði fyrri tilraunin gengur, þ.e. með raforkukerfið, áður en menn taka ákvörðun um að fara aðra leið hvað varðar fjarskiptakerfið í landinu.