Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 17:02:40 (1053)

2003-11-03 17:02:40# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., BJJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[17:02]

Birkir J. Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Við erum þó vonandi sammála um það, við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að þessi stefna hafi verið mörkuð á síðasta kjörtímabili og lá ljós fyrir í kosningabaráttunni. Það er á hreinu. Aftur á móti erum við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ekki sammála að því leyti að ég treysti einkaaðilum vel fyrir því að taka við rekstri banka og Landssíma Íslands. Ég held að ríkið eigi ekki að vera að vasast í þeim rekstri í samkeppni við einkaaðila á markaðnum. Þetta er skýr meiningarmunur í okkar pólitík sem við verðum bara að horfast í augu við.

Ég segi það sem nýr þingmaður hér að ég treysti því að dreifikerfið verði byggt myndarlega upp í tengslum við sölu Símans. Það munu kannski skapast forsendur með sölu Símans og þeim miklu verðmætum sem munu fást af sölunni að hægt verði að byggja af meiri hraða upp dreifikerfi, sem er gríðarlega mikilvægt byggðamál. Það erum við þó sammála um, við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon.

En hvað um það --- ég mótmæli þeim málflutningi að stefna okkar framsóknarmanna hafi ekki legið skýr fyrir fyrir kosningar. Ég segi það enn og aftur: Við tókum þessa ákvörðun á síðasta kjörtímabili, það lá fyrir. Þingmenn stjórnarandstöðunnar veltu okkur upp úr því í kosningabaráttunni og við svöruðum fyrir það.

Ég held að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon geti ekki sagt annað, við erum nú í sama kjördæmi, Norðaust., og ég held að hann hafi ekki heyrt mig tala um það að ég væri á móti sölu Símans í kosningabaráttunni.