Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 17:27:09 (1057)

2003-11-03 17:27:09# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[17:27]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Halda mætti að farið væri að draga nokkuð nær jólum en raun er þegar hv. 9. þm. Reykv. s. gengur í ræðustólinn og hrópar Grýla, Grýla, í framhaldi af landsfundi Samfylkingarinnar. Hv. þm. Ögmundur Jónasson fer einfaldlega með rangt mál þegar hann heldur því fram að á landsfundi Samfylkingarinnar hafi verið fjallað um einkavæðingu og markaðsvæðingu í heilbrigðiskerfinu. Það er einfaldlega alrangt hjá þingmanninum. Hv. þm. veit einfaldlega betur.

Það var fjallað um það að menn í Samfylkingunni vildu, eins og við höfum raunar fjallað um áður, nýta kosti einkarekstrar í heilbrigðiskerfinu og skoða að hvaða leyti markaðslausnir gætu dugað við að takast á við erfið vandamál þar. En einkavæðing er alls ekki á dagskrá Samfylkingarinnar. Það var skýrlega tekið fram um helgina og markaðsvæðing í þeim skilningi sem verður að leggja í það orð alls ekki heldur. Hv. þm. Ögmundur Jónasson er hér að rangtúlka og oftúlka, kannski í þágu ímyndaðra pólitískra hagsmuna sinna eða flokks síns, þá umræðu sem fram fór á landsfundi Samfylkingarinnar um helgina.