Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 17:53:36 (1064)

2003-11-03 17:53:36# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[17:53]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg hárrétt. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samf., minntist aldrei á Verslunarráðið. Hann minntist heldur ekki á hægrisinna í Sjálfstfl. eða hagsmunaaðila sem vilja hafa arð af heilbrigðiskerfinu. Það er alveg rétt, hann minntist ekkert á þá. En hann er að taka undir sömu sjónarmið og þessir aðilar hafa verið að tefla fram, vegna þess að við stöndum á margan hátt á tímamótum um framtíð heilbrigðisþjónustunnar í landinu og almannaþjónustunnar. Við höfum verið að deila hér um einkavæðingu símkerfisins, við höfum verið að tala um raforkuna, við höfum verið að tala um drykkjarvatnið og við höfum verið að tala um heilbrigðisþjónustuna. Og það eru mikil átök um það í heiminum öllum, ekki bara hér á landi, hvert beri að stefna.

Þegar Samf., sem hefur verið að bisa við að kenna sig við félagshyggju, fer að slá þessar sömu baráttubumbur og Verslunarráðið, hægrisinnar í Sjálfstfl. og markaðsöflin hafa verið að slá á undanförnum mánuðum og missirum, þá sperra menn eyrun. Það er ekki að ástæðulausu sem Morgunblaðið fletur þessar fréttir yfir forsíðu sína, að ljósvakafjölmiðlarnir gera þetta að fyrstu frétt, vegna þess að þeir vilja taka Samf. alvarlega.

Síðan verðum við vitni að því hér í þingsal að menn koma upp hver á fætur öðrum til að afneita sjálfum sér og því sem þeir hafa verið að tala fyrir. Og ef hv. þm. heldur að ég hafi glaðst yfir þessum tíðindum þá er það mikill misskilningur. Og ef ég hef misskilið eitthvað þá er ég fyrsti maður til að fagna því, vegna þess að ég vil efla þá liðssveit, hvar í flokki sem hana er að finna, sem ætlar að standa í fæturna gegn gróðaöflunum og standa vörð um samfélagsþjónustuna, (Forseti hringir.) bæta þær brotalamir sem þar er að finna og efla hana og treysta í hvívetna.