Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 18:28:17 (1076)

2003-11-03 18:28:17# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[18:28]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Þeim hv. þingmönnum sem fylgst hafa með því hvernig hæstv. forsrh. tekur gagnrýni eða öðrum sjónarmiðum þarf ekki að koma á óvart þó að hæstv. forsrh. hafi ekki áhuga á því að bjóða til landsfundar síns mönnum sem á öðrum skoðunum eru.

En við í Samf. erum óhrædd við það. Við teljum einfaldlega, hæstv. forsrh., eins og John Stuart Mill orðaði það, að vondar skoðanir hafi ákveðna gagnsemi, að umræðan í sjálfu sér sé nýtileg. Menn eiga að ræða mál og ræða stefnu og þess vegna er mikilvægt að setja heilbrigðismálin á dagskrá íslenskra stjórnmála. Það hefur ekki verið tekist á við þann vanda sem þar er.

Við sjáum enn á ný í fjáraukalögum, enn eitt árið í ríkisstjórnartíð hæstv. forsrh., að það koma inn milljarða bakreikningar, útgjöld sem voru ófyrirséð í fjárlögum og útgjaldavandi sem vex ár frá ári. Ríkisstjórninni virðist alls ekki fært að takast á við vandann. Það er þess vegna sem Samf. hefur ákveðið að ráðast í það verk að kalla til menn úr öllum áttum og ræða hvernig eigi að takast á við heilbrigðismálin. Ég held að það sé verkefni dagsins en ekki útúrsnúningar hæstv. forsrh. eða hv. þm. Ögmundar Jónassonar.