Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 18:49:27 (1084)

2003-11-03 18:49:27# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[18:49]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Þetta sýnir nú hvaða víddir svona umræða getur tekið á sig. Nú er þetta farið að snúast um það að ég útskýri í andsvari stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í heilbrigðismálum fyrir hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni. En upphaf umræðunnar voru þessi grundarvallarhugmyndafræðilegu atriði og tíðindin af landsfundi Samfylkingarinnar.

Við drögum mörkin að mörgu leyti þar í mínum flokki að við viljum ekki hleypa einkarkestri sem rekinn er í hagnaðarskyni innar í kjarna heilbrigðisþjónustunnar og undirstöðu velferðarþjónustu en nú er. Það er grundvallarmunur á þeim rekstri sem sjálfseignarstofnanir og stofnanir sem ekki eru reknar í ágóðaskyni, starfsemi sem félagasamtök hafa með höndum og hinu að einkaaðilar sem stofna fyrirtæki til þess að græða á þeim peninga fái heilbrigðisþjónustuna sem vígvöll. Það er það fyrst og síðast sem ber að varast og allt sem á eftir fylgir. En þá leggja menn af stað inn á braut sem við vitum hvar endar ef hún er gengin til enda, í tvöföldu amerísku kerfi með tilheyrandi mismunun. Það viljum við ekki. (Gripið fram í: Hún er fyrir löngu orðin vígvöllur.)