Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 03. nóvember 2003, kl. 19:09:58 (1090)

2003-11-03 19:09:58# 130. lþ. 19.8 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 130. lþ.

[19:09]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristján L. Möller spyr um tiltekin atriði í fjarskiptum á norðausturhorni landsins. Ég vildi fyrst segja að ég mun væntanlega svara þessu nánar í vikunni þannig að það er best að bíða eftir því að tækifæri gefist til þess að taka þá skriflegu fyrirspurn sem er á dagskrá um þessi efni.

Ræða hv. þm. var hins vegar merkileg að því leyti að hún segir okkur hvers vegna það er ekki skynsamlegt að skilja grunnnet Símans eftir í ríkiseign. Þróunin er svo ör, eins og sést af þeirri tækni sem hann var að lýsa, að við getum staðið frammi fyrir því sem menn kannski hafa óttast, sumir hverjir, að grunnnetið yrði ekki eins notadrjúgt í framtíðinni, bara alveg í næstu framtíð, eins og það er í dag. Allar spár ganga út á það að farsímakerfið og stafræna tæknin leysi mjög mikið af þessu af hólmi, leysi tæknivandamálin.

Það er hins vegar ekkert nýtt sem hv. þm. vekur athygli á að verið sé að nýta í Hrísey. Hér uppi í Borgarfirði hefur þessi tækni verið notuð einmitt í þröngum dölum og á afskekktum stöðum þar sem erfitt er að nýta ljósleiðaratæknina til þess að koma samböndunum á. Ég er alveg sannfærður um að samstarf símafyrirtækjanna, hvort sem er Landssímans eða annarra símafyrirtækja, og sveitarfélaga eða einkaaðila og notenda símkerfanna getur orðið á þann veg að nýta þessa tækni og koma okkur þannig miklu fyrr í samband en með hefðbundnum koparleiðslum og ljósleiðaratækninni. Þetta sem hv. þm. vakti hér athygli á á sér heilmikla möguleika, að ég tel, og ég treysti símafyrirtækjunum til að nýta sér þetta.