Friðlýsing Jökulsár á Fjöllum

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 14:57:50 (1118)

2003-11-04 14:57:50# 130. lþ. 20.4 fundur 19. mál: #A friðlýsing Jökulsár á Fjöllum# þál., HBl
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[14:57]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Hér er hreyft miklu nauðsynjamáli. Ég hef lesið vandlega yfir þá tillgr. sem hér er á þskj. 19 og er þeirrar skoðunar að þar megi ekki eitt einasta orð falla niður, samanber það sem hér segir, með leyfi forseta:

,,Friðlýsingin taki til alls vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum að Kreppu og öðrum þverám meðtöldum með náttúrulegum rennslisháttum, þar sem hvers kyns röskun og mannvirkjagerð er bönnuð. Sérstaklega verði hugað að því við undirbúning málsins hvernig friðlýsing Jökulsár á Fjöllum skuli tengjast núverandi þjóðgarði í Jökulsárgljúfrum og fyrirhuguðum Vatnajökulsþjóðgarði og stofnun frekari þjóðgarða eða verndarsvæða norðan jökla.``

Ég álít að þetta sé mjög gagnort og komi að kjarna málsins. Ég tel að ekki sé hægt að líta á vatnasvæði Jökulsár á Fjöllum öðruvísi en að hafa í huga að auðvitað er Vatnajökull sjálfur hluti af því vatnasvæði og ber að horfa á það sem eina heild.

Ég vil við þetta tækifæri jafnframt lýsa því yfir að ég er þeirrar skoðunar að það eigi mjög að efla rannsóknir á öræfunum norðan Vatnajökuls, sérstaklega því svæði sem hér er fjallað um og tel raunar eðlilegt að þær rannsóknir verði hýstar í þeirri stofnun sem kölluð hefur verið Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn. Ég hygg að heimamenn eigi að hafa stjórn þessarar rannsóknar í sínum höndum og ég tel líka að vísindamenn eigi að vinna og vera staðsettir á þeim slóðum þar sem þeim er sérstaklega falið að sinna verkefnum eins og við tölum nú um í sambandi við þjóðgarða. Í þessari tillögu er t.d. sérstaklega fjallað um umgjörð Jökulsár á Fjöllum í víðasta samhengi.

[15:00]

Það er rétt sem hv. 1. þm. Reykv. n., Össur Skarphéðinsson, sagði áðan að á þeim tíma sem við vorum saman í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur, var komið með virkjunaráætlun inn í ríkisstjórnina, þáv. iðnrh. Sighvatur Björgvinsson. Ég tók þá afdráttarlaust fram að ég væri andvígur því að hrófla við vatnasvæði Jökulsár og jafnframt því að virkja Jökulsá á Fjöllum, svo það liggi alveg ljóst fyrir. Enda var þessu máli ekki hreyft í ríkisstjórninni í þeim skilningi á þeim tíma að ætlast væri til að hún legði blessun sína yfir plaggið, heldur tók ég það svo að það væri fremur til kynningar. En hvernig sem því var háttað er víst að þetta mál kom ekki nema einu sinni á borð ríkisstjórnarinnar.

Ekki efast ég um að það sé rétt að umhvrh. á þeim tíma, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, hafi verið sama sinnis og ég þá, þó hann hafi að vísu ekki verið orðinn jafn hægri sinnaður þá eins og hann er núna ef marka má síðustu sveifluna á flokksþinginu og gladdi mig satt að segja mjög að við skulum nú loksins orðnir skoðanabræður í heilbrigðismálum. Vill hann þó ganga fetinu lengra, því hann vill markaðsvæða heilbrigðisþjónustuna, en ég hef látið nægja að tala um að einkavæða hluta hennar, sem er auðvitað að ganga skemmra heldur en að markaðsvæða sem þeir vita sem kunna íslensku.

Í sambandi við það sem hv. 4. þm. Suðvest. Rannveig Guðmundsdóttir sagði hér áðan um merkilega hugmynd um að virkja eina jökulsá til norður og eina til suðurs, (RG: Vernda.) vernda, þá getur þetta verið allflókið mál ef við erum að hugsa um það að ekki megi byggja varnargarða með ánum. Og er þá sennilega engin jökulsá eftir sem rennur til suðurs, Jökulsá á Breiðamerkursandi, Jökulsá á Sólheimasandi o.s.frv. Við erum í þeim vandræðum að við erum að reyna að hemja vatnaganginn, en með því erum við auðvitað að ganga nærri þessum ám. Svo er raunar líka um Jökulsá á Fjöllum. Við höfum staðið frammi fyrir því þar að nauðsynlegt hefur verið að byggja varnargarða til þess að hindra að áin slæmdist inn í Herðubreiðarlindir eða inn í Skjálftavatn í Kelduhverfi. Það má auðvitað deila um hvort við eigum að gera slíkt, hindra yfir höfuð Jökulsána, leyfa henni bara að fara þangað sem henni sýnist. Ég er þó þeirrar skoðunar að Herðubreiðarlindir séu það mikil perla í náttúru landsins að rétt sé að gera nokkuð til þess að komandi kynslóðir megi áfram njóta þeirra.

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég tel að hér sé hreyft meira en þörfu máli. Ég tel að hér sé hreyft nauðsynjamáli. Og ég styð þessa tillögu. Ég get hugsað mér að skerpt sé á einstökum atriðum, en ekki dregið úr neinu sem þar stendur.