Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 16:38:14 (1129)

2003-11-04 16:38:14# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., Flm. GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[16:38]

Flm. (Gunnar Birgisson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einu sinni þannig, hæstv. ráðherra, að þú situr hér á löggjafarsamkundu Íslendinga. Þurfi að breyta lögum þá væntanlega leggur þú fram frv. til þess arna. Það hefur verið gert í öðrum málum og væri hægt að gera það í þessum málum líka.

Það sem vakir fyrir okkur er að benda ráðherranum á lausnir. Kannski er furðulegast í þessu máli að ráðherra stökkvi upp á nef sér út af því. Umhvn. lagði til að stytta veiðitímann síðasta vor, það er alveg rétt, en við lögðumst gegn sölubanni. Það sem við erum að gera núna, flutningsmenn tillögunnar, er að bjóða upp á að ráðherrann geti nýtt sér það. Hæstv. ráðherra hefur tjáð sig um það í fjölmiðlum að hún hefði jafnvel verið tilbúin að skipta á sölubanni og veiðibanni. Þannig er mjög skrýtið að allt í einu grípi hún til alfriðunar, einn, tveir og þrír.

Ég spyr: Hvað hefur breyst frá því í vor? Við skulum segja að umhverfisnefndin hefði samþykkt að fara þá leið að algert sölubann mundi taka gildi. Værum við þá í sömu stöðu? Væri verið að banna veiðar úr rjúpnastofninum í dag, eða hvað? Væri ekki búið að aflétta friðuninni? Hvað er í gangi? Hvað hefur breyst á svona stuttum tíma? Það væri gaman að fá svör við því.

Það sem vakir fyrir flutningsmönnum er að við getum stundað sjálfbæra nýtingu á rjúpnastofninum, til góða fyrir landsmenn, veiðimenn og aðra sem njóta góðs af, landeigendur, bændur og aðra sem geta bætt lífsafkomu sína með veiðum.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill áminna hv. þm. um að ávarpa þingið rétt.)