Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 17:05:55 (1138)

2003-11-04 17:05:55# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., Flm. GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[17:05]

Flm. (Gunnar Birgisson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rétt til að svara þingmanninum þá var gaman að heyra að hann er fylgjandi --- gaman að heyra það, hann segir það beint út að hann sé með veiðibanni á rjúpu, en hv. þm. vill skoða málið betur.

Það er búið að skoða þetta mál allvel. Ég hef jafnmiklar áhyggjur af rjúpnastofninum og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, og ég hef gengið til rjúpna líka. En það sem vakir fyrir flutningsmönnunum er að gefa ráðherranum möguleika til að opna fyrir málið þannig að hægt sé að veiða úr stofninum að litlu leyti.

Vissulega er skotveiðin ríkjandi þáttur í ástandi rjúpnastofnsins en það eru einnig margir aðrir þættir, m.a. refur og minkur, eins og við höfum rætt um, og það þarf að fækka þeim. Það væri gaman að heyra í hv. þm. hvort hann hafi ekki orðið meira var við ref á þeim slóðum sem hann er frá en verið hefur undanfarin ár og nú flæðir minkurinn um allt land og sumum finnst það hið besta mál, að hafa þessi dýr um allt.

Það er ekki um neitt bögglauppboð að ræða, það er verið að gefa þarna möguleika í málinu og þetta er vel meint bæði fyrir rjúpuna og veiðimennina.