Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 17:53:56 (1153)

2003-11-04 17:53:56# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[17:53]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur frú forseti. Hv. þm. brýnir ráðherra til þess að fara yfir málið aftur og reyna að ná samstöðu um það. Ég tel að þessi umræða hér sé til þess fallin að skýra málið betur og ég býst við því að umhvn. fjalli um það á vandaðan hátt eins og gert var í fyrra. Í fyrra var farið vel yfir málið. Umsagnir voru sendar inn og sérfræðingar okkar komu til nefndarinnar og ræddu við hana. Það kom fram í máli þeirra fyrir nefndinni --- ég vona að hv. þingmaður hafi verið í nefndinni þegar það kom fram --- og það hefur alltaf komið fram hjá Náttúrufræðistofnun að ná þyrfti um 50--70% minnkun á veiðiálagi á rjúpnastofninn. Það kom fram hjá fulltrúum Náttúrufræðistofnunar að ef sölubannið yrði ekki samþykkt, sem varð svo ekki, væri rjúpnaveiðibann einn af þeim kostum sem yrðu skoðaðir þannig að þessar upplýsingar komu fram í nefndinni. Ég vona að hv. þingmenn almennt hafi áttað sig betur á þeim en ég heyri að hv. þm. gerir sem lýsir eftir þessum upplýsingum hérna sem ég er að fara yfir. Það var alveg vitað að staðan var alvarleg í rjúpnastofninum í fyrra. Ég átti talsvert miklar viðræður við Skotvís einmitt um það og reyndar mjög góðar og mjög gott samstarf við þá þannig að það er ekki rétt sem hefur komið fram hér og mér finnst svolítið endurspeglast í ræðu hv. þingmanns að það hafi komið mönnum bara algjörlega í opna skjöldu að staðan væri svo slæm að hugsanlega yrði gripið til alfriðunar. Staðan var svona slæm, og er, og þess vegna er gripið til þessara aðgerða.