Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 18:30:05 (1166)

2003-11-04 18:30:05# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[18:30]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sá landbrh. sem hér stendur gaf leyfi um síðustu jól fyrir miklum innflutningi á grænlenskum rjúpum. En þær veiddust ekki heldur (Gripið fram í: Skoskar.) og voru ekki borðaðar um þau jól. Ja, kannski að þær hafi verið skoskar. Leyfið var gefið en þær veiddust ekki þar heldur.

Hvað þessar spurningar varðar sem hv. þm. beinir til mín þá minnist ég þess að hæstv. umhvrh. sem fer með þetta mál kynnti þá ákvörðun sem hún ætlaði að taka fyrir ríkisstjórn á einhverjum fundi í sumar, ef ég man rétt. Það var hennar ákvörðun og við það var ekki gerð athugasemd. Ég veit ekki hvort hæstv. umhvrh. hefur síðan borið það undir þingflokka.

Ég vil ekki hafa uppi orðið svik í þessum efnum. Sum mál eru þannig gerð í þessu þingi að menn telja sig hafa meira frelsi í þeim en öðrum, að þau séu þverpólitísk. Þetta mál er þannig vaxið þó að ég sé þeirrar skoðunar að þeir menn sem nú flytja þetta mál hafi ekki hugsað það til botns.

Ég vil minna hv. þm. á það að minni hans er nú ekki alveg í fullkomnu lagi því að sá sem hér stendur gaf leyfi fyrir innflutningi á fósturvísum úr norskum kúm í þrjú fjós í samanburðartilraun sem átti að fara hér fram undir mjög athugulum vísindamönnum. Bændurnir hættu við þá tilraun og felldu hana. Síðar hafnaði ráðherra landbúnaðarmála innflutningi sem nokkrir bændur fóru fram á. Ég hef því bæði sagt í því máli já og nei.