Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 18:36:12 (1170)

2003-11-04 18:36:12# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[18:36]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. upplestur úr ræðu minni sem hefur ekki verið prentuð. Ég gerði mér ekki grein fyrir hversu góð hún var fyrr en ég heyrði þennan flutning. Ég tek undir hvert einasta orð sem ég sagði áðan og hv. þm. endurtók í ræðu sinni.

Ég minni hv. þm. á að útúrsnúningar á hinu háa Alþingi eru alvarlegir hlutir. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir var ráðherra í ríkisstjórn Íslands þegar EES-samningarnir voru undirritaðir og hefur gengist undir þá tilskipun að laxeldi skyldi fá að þróast á Íslandi og að það skyldu vera gagnvegir með mjög ströngum skilyrðum í báðar áttir. Hv. þm. var ráðherra við þessar aðstæður. Hún skrifaði undir þjóðréttarlega tilskipun á þeim tíma er þetta gerðist.

Ég flyt nákvæmlega sömu ræðuna um íslenska laxinn og rjúpuna. Við þurfum við að verja þær auðlindir. Ég hef staðið í því sem landbrh. að takmarka og takmarka frelsi laxeldisins og setja því þrengri og þrengri skorður til þess að það fái að þróast í örfáum fjörðum til þess að hægt sé að verja út frá öllum sjónarmiðum þá auðlind sem dafnar í íslenskum laxveiðiám. Við erum því samherjar í þessu máli. Ég stend hins vegar í þeim sporum að taka við gjörð ríkisstjórnar hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur frá 1994. Ég er að vanda mig í því verki og hef gert það þann tíma sem ég hef verið landbrh.