Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 18:44:43 (1175)

2003-11-04 18:44:43# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[18:44]

Sigurjón Þórðarson:

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa yfir stuðningi við þáltill. sem er hér til umræðu. Ég vil einnig lýsa yfir að ég skil ekki hvers vegna hæstv. ráðherra tók þá ákvörðun að alfriða rjúpuna í þrjú ár. Ég hefði talið miklu nær að fara í vægari friðunaraðgerðir því það hafa komið margar mjög góðar tillögur um hvernig vernda má rjúpnastofninn, m.a. frá vísindamönnum hjá Hafrannsóknastofnun, frá Ólafi Karvel Pálssyni sem kom með mjög góðar tillögur og ég hefði talið rétt af hæstv. umhvrh. að hringja í Jóhann Sigurjónsson og fá hann lánaðan. Það hefðu verið mjög góðar tillögur til þess að koma til móts við veiðimenn og til að vernda rjúpnastofninn.

En hverjar voru ástæður fyrir þessari ákvörðun hæstv. umhvrh? Ég óskaði eftir því að fá þær gefnar upp og skrifaði hæstv. ráðherra í júlí sl. Ég vil fá að lesa upp þær spurningar sem ég bar upp við ráðuneytið, með leyfi virðulegs forseta. Ég óskaði eftir því að fá upplýsingar um hvaða vísindaleg gögn lægu til grundvallar veiðibanninu. Ég óskaði jafnframt eftir að gerð yrði grein fyrir því hvers vegna ekki var tekið tillit til tillagna Umhverfisstofnunar um vægari aðgerðir til verndunar rjúpnastofninum, en lögum samkvæmt er það hlutverk hennar að gera tillögu að stjórn og umsjón veiðanna. Óskað var eftir að gerð yrði grein fyrir árangri af alfriðun á griðasvæði rjúpunnar í kringum Reykjavík, hvort friðunin frá 1999 og stækkun svæðisins frá 2002 hafi skilað marktækri fjölgun rjúpna á svæðinu. Óskað var eftir að fá línurit yfir talningu fugla á svæðinu frá 1999. Og hvort núverandi lágmark rjúpnastofnsins sé tölfræðilega marktækt lægra en fyrri lágmörk stofnsins.

Virðulegi forseti. Ég taldi að ég fengi svör við þessum spurningum skjótt en því var ekki að heilsa. Ég fékk ekki svar fyrr en um miðjan september og það svar var hvorki fugl né fiskur. Og umhvrn. lét hjá líða að svara mörgum þeirra spurninga sem ég bar upp þrátt fyrir að ég ítrekaði spurningarnar m.a. við ráðuneytisstjóra í umhvrn. Mér finnst í raun heiðarlegra af umhvrn. að segja bara að það hafi ekki svör í stað þess að humma svona fyrirspurn fram af sér.

Hvert er svo ástand rjúpnastofnsins? Við höfum heyrt hérna margar fullyrðingar og það sem ég get tekið undir er að bæta þarf rannsóknir á stofninum. Staðreyndin er sú, eða alla vega virðast líkur benda til þess, að lágmark stofnsins núna sé ekkert marktækt lægra en fyrri lágmörk rjúpnastofnsins. En það virðist alla vega skorta vilja hjá ráðuneytinu að upplýsa þingmenn um þau gögn sem liggja til grundvallar þessu banni. Er ástæðan fyrir þessu banni e.t.v. einhver önnur en að rjúpnastofninn sé eitthvað lakari nú en t.d. í fyrra? Hvers vegna var ekki gripið til þessara aðgerða í fyrra? Er ástæðan fyrir þessu banni e.t.v. sú að hæstv. umhvrh. sé misboðið að hafa ekki komið í gegn þessu umrædda sölubanni sem var hér til umræðu fyrr í kvöld? Hvað sem því líður þá skuldar hæstv. umhvrh. veiðimönnum og öðrum sem þetta mál varðar skýringar á því hvers vegna hún fór ekki í vægari friðunaraðgerðir.

Málið er að ráðuneytið getur ekki svarað þegar þingmenn spyrja spurninga um hvaða vísindaleg gögn liggi fyrir. Það virðist ekki hafa svör, vísindaleg gögn. Vísindamenn á öðrum stofnunum hafa bent á leiðir sem eru færar til þess að vernda stofninn. Snýst þetta veiðibann einungis um að hæstv. umhvrh. hafi móðgast þegar hún kom ekki þessu sölubanni í gegn? Alla vega tel ég að hæstv. umhvrh. skuldi veiðimönnum og öðrum sem þetta mál varðar skýringar á því hvers vegna ekki var farið í vægari aðgerðir varðandi friðun rjúpnastofnsins en raun ber vitni.