Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 19:06:58 (1181)

2003-11-04 19:06:58# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[19:06]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Frú forseti. Ég lofaði því í stuttu andsvari áðan að fara örfáum orðum um efni máls. Mér varð tíðrætt þá um hina formlegu stöðu málsins sem auðvitað er óhjákvæmilegt að nefna í þessu sambandi og ég mun fara orðum um hér á eftir.

Nú er það þannig, herra forseti, að eftir því hefur verið leitað hver afstaða Samf. hafi verið í þessu stóra máli. Staðreyndin er sú að þingmenn Samf. hafa hér í þessum sal og í umhvn., ekki mánuðum saman, ekki missirum saman, heldur árum saman farið á undan í almennri og skynsamlegri umræðu um það hvernig mætti bregðast við og rætt um sitthvað af því sem hér hefur verið nefnt til sögu, um styttingu veiðitíma, svæðisbundna friðun, jafnvel hugsanlegt veiðibann. Við höfum með öðrum orðum haft allt undir í þessari umræðu og viljað nálgast skynsamlega niðurstöðu í sæmilegri sátt. Það hefur hins vegar lítið verið hlýtt á ábendingar okkar í þessum efnum og ríkisstjórnin viljað hafa þetta mál út af fyrir sig. Þess vegna kemur núna ákallið: Getur Samf. bjargað því sem bjargað verður þegar rjúpan er farin og horfin, eins og hæstv. landbrh. nefnir það nú, að það þýði ekkert að leyfa neina veiði því að það sé enga rjúpu að hafa? Þá má auðvitað gagnálykta og spyrja sem svo: Er þá ekki alveg sársaukalaust að leyfa veiði þegar rjúpan er hvort eð er farin? Það kemur út á eitt þannig að ... (Gripið fram í: Hvers konar rjúpur ...?) Nákvæmlega þetta, eins og hv. þm. bendir hér á, hvers konar stjórnun hefur verið á þessum hlutum? Hvað er það sem við blasir hér eftir átta ára samfellda stjórnarstefnu þessara tveggja flokka? Nú er svo komið að menn eru komnir upp við vegg, ríkisstjórnin sundurtætt og klofin, enginn veit hvert fara skal og þá er beðið um leiðsögn okkar samfylkingarmanna. (Landbrh.: Nei, nei.) Frú forseti. Við höfum áhyggjur af þessu og við teljum mikilvægt að sérfræðingar í þessum málum, okkar fólk í umhvn. með öðru góðu fólki, fari enn einn ganginn yfir málið. Það er óhjákvæmilegt. Og það endar þannig að tíminn hleypur frá okkur, frú forseti. Það er 4. nóvember í dag og þetta venjubundna, hefðbundna veiðitímabil er senn á enda runnið. Það er hálfur annar mánuður þangað til 22. desember rennur upp þannig að menn verða að hafa hraðar hendur ef þeir ætla að senda ráðherra til baka eins og þessi tillaga gerir ráð fyrir. Þetta voru örfá orð um efni málsins.

Frú forseti. Undan hinu verður ekki vikist að hér hefur, eins og ég spáði fyrir um, hægt og bítandi verið upplýst um það hvernig þessi mál birtust með þessum sérkennilega hætti eins og raun ber vitni. Hér hefur verið upplýst um það að þingflokkar stjórnarflokkanna fengu málið til umfjöllunar einhvern tíma á sumarmánuðum væntanlega eftir að ríkisstjórnin hafði samþykkt tillögu hæstv. umhvrh. um algert veiðibann, fyrirvaralaust eftir því sem hæstv. landbrh. upplýsir hér. Þá er gangur mála sá, ef ég kann rétt, þannig var það a.m.k. á árum áður, að málið fer til umfjöllunar í þingflokkum stjórnarflokkanna og ef afgreiðsla mála hefur verið eðlileg, eins og það hefur verið orðað, hafa þingflokkarnir væntanlega heimilað að ráðherra færi sínu fram. Því spyr ég: Var það þannig? Og ég spyr hv. þm. Gunnar Birgisson, 1. flm.: Samþykkti hann og hans 14 félagar í þingflokki Sjálfstfl. að hæstv. umhvrh. fengi að setja þetta bann? Það er bara hin einfalda klára spurning. Á sama hátt hlýt ég að spyrja þá tvo --- eða þrír eru þeir raunar, ég gleymdi áðan í upptalningu minni hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni en hann er hvort eð er á móti öllu sem ríkisstjórnin gerir þannig að það er engin ný frétt --- þingmenn hvort það væri með sama hætti og ég hlýt enn fremur að spyrja hæstv. umhvrh.: Voru þessir þrír þingmenn í hennar þingflokki, Framsfl., andvígir því að hún fengi að setja á veiðibann með reglugerð? Lýstu þeir því yfir að þeir mundu koma hér á haustdögum og fara gegn henni? Ég bið um svar við því. Ég vil bara hafa þetta á hreinu. Við búum hér við þvingunarstjórn, það hefur réttilega komið fram. Og þessir blessaðir hæstv. ráðherrar búa við það að stuðningsmenn þeirra úti í salnum styðji þá því að annars er ríkisstjórnin ónýt, annars hefur hún ekki stjórnarmeirihluta. Það þýðir auðvitað ekki, frú forseti, að hæstv. ráðherrar komi hér þegar það þykir henta og segi eins og hæstv. landbrh.: Þetta mál er bara þverpólitískt. Um þetta mál gilda allt önnur lögmál. (Landbrh.: Ég sagði það ekki.) Og ég spurði hér um norsku kýrnar og hann smeygði sér auðvitað fram hjá þeim.

Ég get notað önnur mál. Hér var verið að dreifa litlu nál. þar sem hæstv. landbrh. fær heldur betur gúmoren, honum er sagt til syndanna hér, í örfáum orðum hefur hann nánast farið á svig við stjórnarskrá, hvorki meira né minna. Það erum ekki við í stjórnarandstöðunni sem erum að gefa slíkar einkunnir, það er öðru nær, virðulegi forseti. Það eru þingmenn á borð við hv. þm. Drífu Hjartardóttur, Magnús Stefánsson, Einar Odd Kristjánsson, Guðmund Hallvarðsson og Birki Jón Jónsson. Þeir eru tveir þarna, flokksbræður hæstv. landbrh. Þar er bara einfaldlega sagt að hann hafi farið offari við setningu bráðabirgðalaganna þannig að það er bara einn ráðherra á dag. Er skrýtið að menn spyrji: Er þessi blessaða ríkisstjórn, hæstv., á vetur setjandi?

Ég get svo sem nefnt fleiri dæmi. Hæstv. menntmrh. sem kveður senn hefur áform um að klára styttingu stúdentsprófs og væri það þá ósköp eðlileg niðurstaða að allt í einu mættu 17 stjórnarliðar í þingsal með ályktunartillögur um að hætta við það? Ég get notað einhver fleiri dæmi, ég gæti notað hvað sem er. Menn sjá í hendi sér að þessi ríkisstjórn stendur ekki styrkum fótum.

Við vorum að ræða hér fyrir margt löngu --- ég tók raunar ekki þátt í þeirri umræðu --- hið svokallaða vændisfrv. Það var líka allt út og suður. Er það bara þverpólitískt þegar það hentar, frú forseti? Hvers eigum við að gjalda í stjórnarandstöðunni? (Gripið fram í.) Við erum satt að segja alveg rugluð og vitum ekki hvort við erum að koma eða fara. Er þessi ríkisstjórn starfandi með hefðbundnum hætti? Nýtur hún hér þingmeirihluta eða gerir hún það ekki? Um það snýst þetta mál og menn hljóta auðvitað að svara því, og ég spyr hæstv. umhvrh.: Finnst henni þessi tillaga bera þess merki að vera sérstök traustsyfirlýsing í hennar garð, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson orðaði það? Tekur hún þessa tillögu flokksbræðra sinna og annarra stjórnarþingmanna sem sérstaka traustsyfirlýsingu? Ég vil enn fremur spyrja hana: Ef svo færi að tillagan yrði hér samþykkt á næstu dögum eða vikum, hvernig mundi hæstv. ráðherra bregðast við? Mundi hún líta á það sem vantraust stjórnarmeirihlutans? Mundi hún hætta eða hvað mundi hún gera? Mundi hún sérstaklega fagna því að þarna væri komin fram sérstök traustsyfirlýsing á störf hennar?

Frú forseti. Hér eru auðvitað málin í rjúkandi rúst. Þetta mál kannski eitt og sér kann ekki að velta við öllum þessum steinum en það er engu að síður talandi dæmi um það að þessi ríkisstjórn er komin að fótum fram og græt ég það svo sem ekki.