Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 19:39:32 (1192)

2003-11-04 19:39:32# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[19:39]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er a.m.k. ekki skoðun þeirrar er hér stendur að þetta sé gerræðisleg ákvörðun. Þetta er nauðsynleg ákvörðun og hún er tekin vegna tillagna okkar færustu fuglasérfræðinga. Ég er ekki fuglasérfræðingur en ég tel mig hafa ákveðið brjóstvit gagnvart því að geta tekið við ráðgjöf okkar færustu sérfræðinga og þeir lögðu til friðun í fimm ár í ljósi stöðunnar í stofninum. Vegna þess að stofninn er í lágmarki en er að fara í uppsveiflu er núna lag að leyfa honum að vaxa. Þetta er sá tími sem helst ætti að leyfa stofninum að vaxa óheft til þess að reyna að ná uppsveiflunni eins öflugri og hún var áður fyrr. Sveiflurnar hafa verið að sléttast út og það er áhyggjuefnið.