Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 14:11:11 (1215)

2003-11-05 14:11:11# 130. lþ. 21.4 fundur 84. mál: #A upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[14:11]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Í haust var mér kynnt frétt um að upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Norðurlönd, sem staðsett er í Kaupmannahöfn, verði lögð niður um áramótin. Skrifstofan verði sameinuð upplýsingadeild í Brussel þar sem Evrópusambandslöndin muni hafa forgang. Það var fremur hljótt um þessa ákvörðun og virðist sem algjört áhugaleysi hafi ríkt hjá ríkisstjórnum Norðurlanda að viðhalda upplýsingaskrifstofunni í Kaupmannahöfn. Þetta er sérstaklega athyglisvert þar sem Norðurlöndin öll sem eitt lyfta Sameinuðu þjónuðum sem hornsteini í sinni utanríkispólitík.

Á fréttavefnum sem gerði þessa breytingu að umtalsefni kom fram að Danir hafi talið að það að halda áfram með skrifstofuna snerist um tiltölulega litla fjármuni, að Svíar hefðu ekki viljað leggja neitt meira til, ekkert hefði heyrst frá Noregi, en Íslands og Finnlands er lítið getið nema að því leyti að þetta mundi skipta mjög miklu máli fyrir Noreg og Ísland sem lönd utan Evrópusambandsins.

Það má ætla að ný upplýsingaskrifstofa í Brussel gagnist miklu fremur þeim þremur Norðurlandanna sem eru aðilar að Evrópusambandinu en jafnframt má ætla að hætta sé á að Ísland og Noregur geti lent utan girðingar. Ísland hefur kostað eina stöðu á upplýsingaskrifstofunni í Kaupmannahöfn svo það má nú ætla að utanrrn. hafi talið að það samræmdist hagsmunum okkar að vera með aðild að slíkri upplýsingaþjónustu og ekki síst þar sem m.a. upplýsingar á okkar eigin tungumáli voru tryggðar með aðild okkar að þessari skrifstofu.

Þess vegna er fyrirspurn mín til hæstv. utanrrh. svohljóðandi:

1. Hver eru rökin fyrir því að leggja niður upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn og flytja verkefni hennar undir upplýsingaskrifstofu Evrópusambandsins í Brussel?

2. Hefur þessi flutningur breytingar í för með sér fyrir EES-löndin?

3. Mun Ísland áfram kosta stöðugildi á upplýsingaskrifstofunni?