Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 14:13:44 (1216)

2003-11-05 14:13:44# 130. lþ. 21.4 fundur 84. mál: #A upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[14:13]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Lokun upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn er hluti af aðgerðum til almennrar hagræðingar í upplýsingastarfsemi Sameinuðu þjóðanna samkvæmt tillögum aðalframkvæmdastjóra samtakanna í skýrslu sem samþykkt var á 57. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Það hefur verið stefna Íslands ásamt hinum Norðurlöndunum að styðja við bakið á framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Kofi Annan, og því hafa Norðurlöndin ekki gert fyrirvara með tilliti til upplýsingaskrifstofunnar í Kaupmannahöfn jafnvel þótt almenn ánægja ríki á Norðurlöndunum um starfsemi hennar. Ekki er um það að ræða að starfsemi upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn verði flutt undir upplýsingaskrifstofu Evrópusambandsins í Brussel. Hins vegar stendur til að opna þar um næstu áramót sérstaka upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu, í stað níu minni skrifstofa sem starfað hafa í jafnmörgum löndum Evrópu, í Aþenu, Bonn, Brussel, Kaupmannahöfn, Lissabon, London, Madrid, París og Róm. Skrifstofurnar í Vínarborg og Genf verða reknar áfram.

Að því er varðar 2. lið fsp. þá hefur upplýsingaskrifstofan í Kaupmannahöfn miðlað upplýsingum á tungumálum Norðurlandanna en þó aðeins að takmörkuðu leyti á íslensku. Til þess að bæta úr því veitti utanrrn. upplýsingaskrifstofunni í Kaupmannahöfn 500 þús. kr. styrk á þessu ári vegna vinnu íslensks starfsmanns við vefsíðugerð á íslensku. Við breytinguna er gert ráð fyrir að hin nýja Evrópuskrifstofa upplýsingadeildar Sameinuðu þjóðanna muni miðla upplýsingum á tungumálum núverandi Evrópusambandsríkja.

Að því er varðar 3. liðinn þá hefur Ísland ekki kostað stöðugildi á upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn nema með ofangreindum styrk sem aðeins var veittur í eitt skipti vegna sérstaks verkefnis. Nú er unnið að því að stofna í Reykjavík miðstöð Sameinuðu þjóðanna þar sem vonast er til að hægt verði að hýsa undir sama þaki Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, UNICEF á Íslandi, UNIFEM á Íslandi og e.t.v. fleiri aðila. Utanrrn. styrkir þetta verkefni. Gert er ráð fyrir að ný miðstöð Sameinuðu þjóðanna geti í samvinnu við hina nýju Evrópuskrifstofu upplýsingadeildar Sameinuðu þjóðanna, sem áður er getið, sinnt ýmsum þeim verkefnum á sviði upplýsingamiðlunar sem upplýsingakrifstofa Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og utanrrn. hafa sinnt fram að þessu.