Landbúnaðarstefna Evrópusambandsins

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 14:21:45 (1219)

2003-11-05 14:21:45# 130. lþ. 21.5 fundur 92. mál: #A landbúnaðarstefna Evrópusambandsins# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[14:21]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Helsta einkenni þeirra breytinga sem nú eiga sér stað og eru fram undan innan Evrópusambandsins er að framleiðsla er að mestu leyti aftengd styrkveitingum. Þess í stað er meiri áhersla lögð á matvælaöryggi og umhverfismál.

Í meginatriðum verður framkvæmdin á þann veg að í stað framleiðslutengdra styrkja nýtur hvert býli árlegs, almenns framlags sem er reiknað í hverja einingu lands. Framlagið er fundið út frá því hvað viðkomandi býli fékk í framlag árin 2000--2002, en þær viðmiðanir má leiðrétta hafi rekstur býlisins verið afbrigðilegur á viðmiðunarárunum. Frá þessari meginreglu var samið um frávik sem aðildarlöndin mega beita hvert fyrir sig til að samkomulag næðist.

Nýtt fyrirkomulag tekur gildi 1. jan. 2005, sem er ári seinna en framkvæmdastjórnin hafði lagt til. Þá verður hverju og einu landi heimilt að fresta gildistöku þessa fyrirkomulags í allt að tvö ár eða til 1. jan. 2007.

Markaðsstuðningur tekur einnig breytingum. Markmiðið er að færa markaðsverð ESB fyrir landbúnaðarafurðir nær heimsmarkaðsverði. Eftir sem áður verður markaðsverð matvæla innan ESB hærra en heimsmarkaðsverð vegna markaðsverndar sem tollar og uppkaupaverð umframframleiðslu veita og einnig vegna útflutningsbóta. Þá er enn fremur ákveðið að framlög til einstakra býla sem eru umfram 5.000 evrur á ári verði skert um 3% árið 2005 stighækkandi í 5% árið 2007 og síðar. Þó skal ekki skerða framlög til býla á jaðarsvæðum.

Áætlað er að þessi skerðing nemi 1,2 milljörðum evra sem verði deilt út eftir þeirri meginreglu að hvert land fær í sinn hlut að lágmarki 80% af því sem það leggur til. Hverju landi er heimilt að veita landbúnaði sínum viðbótargreiðslur að hámarki 10% af þeim stuðningi sem ESB veitir. Sé þessi stuðningur búgreinatengdur má hann ekki nema hærri fjárhæð en nemur 10% þess stuðnings sem búgreinin fær úr sjóðum ESB. Þessi framlög skulu vera til umbóta og umhverfisverndar í landbúnaði og hvetja til betri gæða og markaðssetningar fyrir búvörur.

Viðbrögð aðildarríkjanna voru misjöfn en þó virtust öll hafa náð ásættanlegum lausnum sinna mála í málamiðlun þeirri sem samþykkt var að lokum. Portúgalar voru þeir einu sem greiddu atkvæði gegn endurskoðuninni.

Þess má geta að samtök evrópskra bændasamtaka voru lítt ánægðir með niðurstöðuna. Gagnrýni þeirra var á þá lund að verið væri að færa landbúnaðarstefnuna aftur heim í hérað, eins og það var orðað, samkeppnishæfni evrópsks landbúnaðar væri í hættu, niðurskurður væri of mikill í mjólkurgeiranum og hætta væri á að framleiðsla mundi leggjast af á harðbýlum svæðum þar sem framleiðslutenging styrkja hefði verið afnumin.

Að því er varðar síðari hluta fsp. þar sem spurt er hvernig þessar breytingar falli að íslenskum hagsmunum, er því til að svara að landbúnaðarstefnan hefur í sjálfu sér engin áhrif á íslenskan landbúnað enda er hann ekki hluti af landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins. Þannig er ekkert sem bendir til að umbæturnar á landbúnaðarstefnu ESB hafi áhrif á íslenskan landbúnað eða raski samkeppnisstöðu hans gagnvart hinum Evrópusambandsríkjunum enda nýtur íslenskur landbúnaður mikillar sérstöðu og útflutningshagsmunir okkar eru tiltölulega litlir.

Hins vegar kann breytt landbúnaðarstefna ESB að hafa áhrif á stöðu Íslands í alþjóðlegu samhengi sem endurspeglast fyrst og fremst í yfirstandandi samningaviðræðum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Ég hef sagt að þess megi vænta að niðurstaða ESB verði leiðbeinandi um þær breytingar sem gera verði á íslenska landbúnaðarkerfinu vegna væntanlegra WTO-samninga en breytt landbúnaðarstefna ESB skapar sambandinu aukið svigrúm í Doha-samningalotunni. Til þess að hægt sé að leiða þær samningaviðræður til lykta af Íslands hálfu er víst að við þurfum að vera reiðubúin til að taka á okkur skuldbindingar um endurskoðun á landbúnaðarstefnunni.

Þó að viðræðurnar hafi siglt í strand í Cancún að þessu sinni og óvíst um næstu skref er það ekkert launungarmál að okkar bíður það verkefni að hagræða í íslenskum landbúnaði svo að hann geti mætt aukinni samkeppni og breyttu rekstrarumhverfi á heimsmarkaði á næstu árum.