Úttekt á umfangi skattsvika

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 15:04:53 (1234)

2003-11-05 15:04:53# 130. lþ. 21.8 fundur 130. mál: #A úttekt á umfangi skattsvika# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[15:04]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Fjmrh. skipaði starfshóp í samræmi við umrædda þáltill. frá 3. maí 2002 með skipunarbréfi sem dagsett er í júlí 2002. Í starfshópinn voru skipaðir Snorri Olsen, tollstjóri í Reykjavík, jafnframt formaður, Indriði H. Þorláksson ríkisskattstjóri og Skúli Eggert Þórðarson skattrannsóknarstjóri. Með starfshópnum hafa starfað séfræðingar í fjmrn. Hópurinn hefur fundað reglulega frá hausti 2002.

Hlutverk starfshópsins er í fyrsta lagi að athuga hvernig skattsvik, skattsniðganga og dulin efnahagsstarfsemi hafa, frá því að nefnd sem kannaði umfang skattsvika skilaði skýrslu á árinu 1993, þróast eftir skatttegundum, atvinnugreinum, landsvæðum og í samanburði við aðrar þjóðir og hvert tekjutap ríkis og sveitarfélaga hefur verið af þessum sökum.

Í öðru lagi að athuga helstu ástæður skattundandráttar og að hve miklu leyti megi rekja hann til skattalaga annars vegar og skattframkvæmdar hins vegar.

Í skipunarbréfi kemur fram að starfshópurinn skuli leita upplýsinga og ábendinga hjá aðilum vinnumarkaðarins og öðrum hagsmunaaðilum eftir því sem við á.

Viðfangsefni þessa starfshóps er að mörgu leyti víðfeðmara en fyrri sambærilegra starfshópa þar sem verkefni hans lýtur ekki eingöngu að skattsvikum heldur einnig skattsniðgöngu og dulinni efnahagsstarfsemi. Nefndin frá 1993 afmarkaði t.d. umfjöllun sína um skattsvik við refsiverð brot gegn lögum um tekjuskatt og eignarskatt, virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjald.

Það er rétt sem fram kom í máli fyrirspyrjanda að margvíslegar breytingar hafa átt sér stað í íslensku samfélagi frá útkomu síðustu skýrslu er snerta viðfangsefni starfshópsins. Þannig hafa frjálsir fjármagnsflutningar og frjálsari viðskipti milli landa aukist frá því sem áður var. Hefur sú þróun kallað á ný athugunarefni fyrir skattyfirvöld sem gefa þarf gaum. Starfshópurinn hefur því kannað þennan þátt sérstaklega.

Starfshópurinn hefur aflað ýmissa gagna bæði innan lands og utan. Í samanburði við aðrar þjóðir hefur einkum verið litið til hinna Norðurlandanna. Hafa nefndinni m.a. borist skýrslur og gögn úr sambærilegum úttektum sem unnar hafa verið þar. Þá hafa fulltrúar starfshópsins sótt fund um skattsniðgöngu og skattsvik sem haldinn var í Ósló í vor á vegum ríkisskattstjóraembætta Norðurlandanna.

Starfshópurinn hefur óskað eftir ábendingum og athugasemdum frá ýmsum innlendum aðilum svo sem hagsmunasamtökum og opinberum stofnunum. Þá hefur verið framkvæmd könnun á vegum Gallups þar sem könnuð var afstaða manna til skattsvika og þátttaka í slíkum brotum. Er könnunin sambærileg fyrri könnunum sem gerðar hafa verið og verður hún birt í lokaskýrslu starfshópsins.

Þar sem erfiðlegar hefur gengið að afla gagna en ætlað var í upphafi hefur vinna hópsins því miður tafist nokkuð frá upphaflegri áætlun. Í skýrslu sambærilegrar nefndar sem lauk störfum á árinu 1993 voru skattsvik m.a. metin með samanburði úr þjóðhagsreikningum eftir mismunandi uppgjörsaðferðum, annars vegar framleiðsluuppgjöri og hins vegar ráðstöfunaruppgjöri. Mismunur þessara tveggja aðferða gaf vísbendingu um þær tekjur sem ekki voru taldar til skatts.

Í fyrrnefndri skýrslu frá 1993 voru framangreindar upplýsingar birtar vegna áranna 1975--1992. Starfshópurinn sem nú er að störfum hefur undir höndum samsvarandi tölur vegna áranna 1993--1997 sem birtar verða í lokaskýrslu hópsins. En vegna breyttra aðferða við úrvinnslu framangreindra gagna hefur starfshópnum hins vegar ekki tekist, a.m.k. ekki enn sem komið er, að afla sambærilegra gagna vegna áranna 1998 til og með 2002. Því miður hafa sem sagt orðið tafir á því að hópurinn gæti lokið störfum en hann stefnir að því að ljúka störfum sínum sem allra fyrst.

Síðan er spurt, herra forseti, hvort ráðherra muni gera Alþingi grein fyrir niðurstöðum strax og þær liggi fyrir. Ég vil svara því þannig að ég mun að sjálfsögðu gera Alþingi grein fyrir öllum þeim niðurstöðum í þessari skýrslu sem unnt er að birta opinberlega og sjálfsagt að ræða það mál hér á Alþingi þegar þar að kemur. Reyndar á ég ekki von á því að í þessari skýrslu verði nein sérstök leyndarmál. Upphaf þessarar rannsóknar er að finna á Alþingi þannig að það er auðvitað eðlilegt að Alþingi verði gerð grein fyrir málinu.