Kynfræðsla í framhaldsskólum

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 19:14:18 (1278)

2003-11-05 19:14:18# 130. lþ. 21.20 fundur 188. mál: #A kynfræðsla í framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[19:14]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 7. þm. Suðurk., Brynja Magnúsdóttir, spyr hvort ég álíti koma til greina að auka fræðslu um forvarnir og kynheilbrigði í framhaldsskólum þannig að nemendur hafi greiðan aðgang að fagaðila í skólanum? Þessi mál eru sífellt í skoðun og ýmislegt hefur verið gert á liðnum árum til að auka fræðslu um forvarnir og kynheilbrigði. En alltaf má gera betur. Það sýnir t.d. há tíðni þungana ungra stúlkna, upplýsingar frá sóttvarnalækni um háa tíðni klamýdíusmits hér á landi og einnig sú dapurlega staðreynd að tíðni fóstureyðinga meðal kvenna á aldrinum 15--19 ára er hærri hér en annars staðar á Norðurlöndum þó að fóstureyðingar séu færri en í Skandinavíu almennt. Um leið vil ég benda á að samkvæmt bráðabirgðatölum frá landlæknisembættinu fækkaði fóstureyðingum um 6% á árinu 2002 miðað við árið á undan. Sömuleiðis hefur heldur dregið úr klamýdíusmiti síðustu tvö ár.

Í október árið 2000 var í ríkisstjórn samþykkt áætlun um aðgerðir til að sporna við fóstureyðingum og ótímabærum þungunum ungra stúlkna. Byggt var á tillögum sem starfshópur á vegum heilbrrh. skilaði í árslok 1999. Tillögurnar lúta í grófum dráttum að aukinni fræðslu fyrir heilbrigðisstarfsfólk og kennara til að sinna forvörnum og veita fræðslu og ráðgjöf um kynheilbrigði og getnaðarvarnir. Einnig snúa þær að aukinni ráðgjafarþjónustu um kynlíf, getnaðarvarnir, barneignir og kynsjúkdóma, fyrir ungt fólk innan framhaldsskólanna. Þar er lagt til að aðgengi að getnaðarvörnum verði bætt. Landlæknisembættinu var falið að vinna að útfærslu þessara tillagna og skilaði hugmyndum sínum til ráðuneytisins í júní 2001. Í framhaldi af þessu má nefna að landlæknisembættið hefur samið klínískar leiðbeiningar fyrir neyðargetnaðarvörn. Einnig endurskoðaði embættið bæklinga fyrir almenning þar sem fjallað er um allar tegundir getnaðarvarna.

Um þessar mundir er verið að leggja lokahönd á námsefni fyrir framhaldsskóla sem fjallar um ungt fólk og heilbrigt kynlíf og mun án efa verða kennurum og öðrum sem sinna þessari fræðslu í framhaldsskólum kærkomið efni.

Verkefnisstjórn um heilsufar kvenna kannaði í byrjun þessa árs hvernig hagað væri skólaheilsugæslu í framhaldsskólum. Haft var samband við 23 framhaldsskóla um allt land. Fram kom að einhver skólaheilsugæsla er í 14 þeirra en engin við níu þeirra. Af þessum níu eru fimm á höfuðborgarsvæðinu. En þess ber að geta að heilsugæslan á Stór-Reykjavíkursvæðinu býður ungmennum á aldrinum 13--20 ára upp á þjónustu fagaðila á móttöku fyrir ungt fólk.

Ég tel að miklu skipti fyrir fólk á framhaldsskólaaldri að fá góða fræðslu um allt sem lýtur að heilbrigðu kynlífi og ábyrgðinni sem því fylgir. Þá á ég ekki aðeins við líffræðilega uppfræðslu, fræðslu um getnaðarvarnir og varnir gegn kynsjúkdómum heldur einnig við siðferðileg viðhorf, virðingu einstaklingsins fyrir sjálfum sér og mótaðilanum sem er forsenda heilbrigðs kynlífs. Útfærsluna á þessu vil ég skoða nánar.

Það þarf að skoða hvaða fræðsla á að vera hluti af námsefni skólanna í höndum kennara og hins vegar hverju fagfólkið á að sinna. Þá er ekki sjálfgefið að binda þjónustu fagfólks við skólana. Hugsanlega hentar betur að efla móttökustöðvar fyrir ungt fólk utan skóla og utan skólatíma og e.t.v. hentar ekki það sama í dreifbýli og þéttbýli. Það má ekki heldur gleyma þjónustu við fólk á þessum aldri sem ekki er í framhaldsskólum. Ég vil taka á þessu máli og hyggst beina því til verkefnisstjórnar um heilsufar kvenna að gera tillögur um hvernig best sé að auka og bæta þá þjónustu sem ungu fólki stendur til boða á þessu sviði.

Hv. þm. spyr einnig hvort ég telji koma til álita að hið opinbera greiði niður smokka handa fólki á framhaldsskólaaldri. Sóttvarnalæknir er nú með í skoðun hvernig auka megi notkun smokka meðal ungs fólks en smokkurinn er eina getnaðarvörnin sem komið getur í veg fyrir smit allflestra kynsjúkdóma. Ég vil skoða allar leiðir til að smokkurinn og aðrar getnaðarvarnir nýtist ungu fólki sem best og vil ekki útiloka neinar leiðir í því sambandi. Ég vænti þess að sóttvarnalæknir muni skila mér hugmyndum sínum í þessu sambandi innan tíðar, m.a. í ljósi reynslu annarra þjóða. Þangað til tel ég ekki tímabært að taka frekari afstöðu til málsins.

Herra forseti. Hv. þm. hefur vakið athygli á máli sem skiptir líf og heilsu ungs fólks miklu. Ég vona að svör mín hafi upplýst um stöðuna í þessum málaflokki og þakka hv. þm. fyrir að hreyfa þessu mikilvæga máli.