Gjald vegna ólögmæts sjávarafla

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 14:32:32 (1469)

2003-11-11 14:32:32# 130. lþ. 24.3 fundur 254. mál: #A gjald vegna ólögmæts sjávarafla# (rannsóknir og nýsköpun) frv., 255. mál: #A stjórn fiskveiða# (hafrannsóknaafli, þorskeldiskvóti) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[14:32]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Þau frumvörp sem hæstv. sjútvrh. hefur flutt eru ekki stór í sniðum og um þau þarf kannski ekki að hafa miklar deilur. Það sem þarna er verið að gera er annars vegar að samræma í einn sjóð sem heyrir ekki undir hæstv. landbrh., sem betur fer, þ.e. verið að taka hafrannsóknaaflann og færa hann í einn sjóð og eins það sem kemur inn fyrir ólögmætan afla. Út af fyrir sig er þetta, virðulegi forseti, mjög skynsöm leið og ég hef ekkert á móti því að þetta sé fært yfir í einn sjóð, Verkefnasjóð sjávarútvegs. Ég hef þó þann fyrirvara á þegar verið er að stofna slíka sjóði og setja þá í gang, að það sé ekki eingöngu á hendi ráðherra. Það fylgi með reglugerð hæstv. ráðherra um hvernig eigi að nota sjóðinn og jafnframt fari sjóðstjórn yfir þetta og vinni eftir ákveðnum reglum, því það verða miklir peningar í sjóðnum sem verður ráðstafað. Ég hef þann fyrirvara á þegar ég lýsi stuðningi við það sem hér er verið að gera að bæði reglugerð og hugmyndir að sjóðstjórn og helst hverjir í henni verði komi til sjútvn. áður en við tökum þetta mál úr nefnd og ræðum það við 2. umr.

Ég vil líka segja um frv. á þskj. 274 að ég er sammála því sem þar kemur fram í 4. gr. um að svipta megi hlutaðeigandi skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef skuld þess er ekki greidd. Það er eðlilegt að þetta sé haft inni. Menn eiga ekki að komast upp með það að geta dregið það að greiða ríkissjóði það sem ríkissjóði sannarlega ber. Þess vegna tel ég að þarna sé farið rétt með.

Hins vegar, virðulegi forseti, þegar verið er að tala um þessa sjóði, annars vegar sjóð vegna ólögmæts sjávarafla og hins vegar hinn svokallaða Hafró-sjóð, blandast þetta inn í fjárlög og fjárveitingar til ýmissa fagstofnana sem vinna á vettvangi sjávarútvegsins eins og t.d. Hafrannsóknastofnunar, Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og Fiskistofu. Það kom fram nýlega, á tveimur síðustu fundum hv. sjútvn., þar sem við höfum verið að kalla til okkar hina ýmsu aðila, forsvarsmenn stofnana ríkissjóðs, ríkisfyrirtækja, til að ræða um það vegna gerðar fjárlaga, þá kom það fram í umræðum við forstjóra Hafrannsóknastofnunar að Hafró-aflinn væri stofnuninni mjög mikilvægur vegna þess að stofnunin hefði ekki nægilegt fé á fjárlögum. Þegar ég spurði hvort þetta háði stofnuninni og hvort það væru einhver verkefni sem sætu á hakanum vegna þess að stofnunin hefði ekki úr nógu miklu fé að spila var því svarað játandi. Þar eru t.d. verkefni eins og veiðarfærarannsóknir, rannsóknir á nýjum stofnum, veðurfarsbreytingum og ýmsu fleiru. Það kom líka fram, sem mér þótti merkilegt, að það er stórt verkefni á sviði loðnurannsóknar í Norðurhöfum sem hefur setið á hakanum vegna skorts á fé.

Þetta nefni ég, virðulegi forseti, vegna þess að það kom fram að þessi Hafró-afli, þessi Hafró-sjóður, hefði verið hálfgerð guðsgjöf fyrir Hafrannsóknastofnun til þess að geta áfram sinnt þeim verkefnum sem þeir eiga að gera og vilja komast í.

Ég vil líka geta þess, virðulegur forseti, að á þessum fundi sjútvn. óskaði nefndin eftir því að fá afrit af þeim fjárlagabeiðnum sem Hafrannsóknastofnun hefði sent til sjútvrn. Þetta var fundur sem mig minnir að hafi verið haldinn 3. nóvember, og nú þegar þessi umræða er hafa þessi gögn því miður ekki enn borist. En ég vil geta þess, virðulegi forseti, að ég bað ritara nefndarinnar áðan að ýta á eftir því að við fáum þessi gögn, því ég tel það mjög mikilvægt og hefði viljað hafa þau núna við höndina í þessari umræðu. Ég mun, virðulegi forseti, koma aftur þegar þau gögn hafa borist til að ræða þetta mál vegna þess að þetta blandast inn í þær breytingar sem hér er verið að gera þó svo að auðvitað geti Hafrannsóknastofnun fengið úr þessum eina sjóði í framtíðinni. En ég spyr: Ef það verður minna, hvernig verður þá ástatt hjá Hafrannsóknastofnun?

Mig minnir að það hafi komið fram, ég verð þá leiðréttur ef svo er ekki, að ráðuneytið hafi skorið niður fjárlagabeiðnir um 350 millj. kr. eða svo. Ég hef ekki skrifað það nákvæmlega hjá mér en sé það betur á eftir þegar gögnin frá Hafrannsóknastofnun koma, þ.e. frumgögn til ráðuneytisins um fjárþörf Hafrannsóknastofnunar á næsta ári. Ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. sjútvrh. um það, hann mun þá geta svarað því á eftir, hvort það sé rétt að ráðuneytið hafi skorið svo mikið niður beiðnir Hafrannsóknastofnunar vegna fjárlaga að það sé um það bil þessi tala. Vonandi skýrist það áður en þessari umræðu lýkur og við fáum gögnin frá Hafrannsóknastofnun til að bera það saman við það sem er í fjárlagafrv.

Með öðrum orðum, virðulegi forseti, kom það fram hjá fulltrúum Hafrannsóknastofnunar að þeir vilja meira fé og telja sig þurfa meira fé til rannsókna. Í frv. til fjárlaga á næsta ári er t.d. ekki gert ráð fyrir peningum í hrefnuveiðar eða hvalveiðar en því verður sennilega breytt milli umræðna.

Það er ákaflega mikilvægt, virðulegi forseti, að þetta komi fram í þessari umræðu vegna þess að ég hef áður, sl. vor, átt orðastað við hæstv. sjútvrh. út af rannsóknum á loðnu sem margir sjómenn töldu að hefðu verið styttar, vegna þess að Hafrannsóknastofnun hefði ekki úr nógu miklu fé að spila. Það hefur líka komið fram að skipin eru stærsti útgjaldaliður Hafrannsóknastofnunar. Þar vinna 175 starfsmenn, 110 í Reykjavík, á höfuðborgarsvæðinu, og 40 í áhöfn skipanna og það eru gerð út þrjú skip.

Það kom líka fram að úthaldsdögum skipanna til hafrannsókna er að fækka. Enn einu sinni minni ég á það, virðulegi forseti, að það er ákaflega mikilvægt að þingmenn hafi í huga þegar þessi Hafró-sjóður, ef svo má að orði komast, er tekinn inn í þennan allsherjarverkefnasjóð sjávarútvegsins sem á að vera í framtíðinni, sem ég hef engar athugasemdir við. En það er ákaflega mikilvægt að þetta sé nefnt og tekið inn í umræðuna vegna þess að Hafrannsóknastofnun virðist þurfa á þessum peningum að halda vegna þess að hún fær ekki næga peninga á fjárlögum hverju sinni.

Það kemur fram í frv. að árið 2002 hafi þetta gefið tæpar 100 millj. kr. og fyrstu níu mánuði þessa árs 125 millj. kr. Þetta virðist muna miklu fyrir Hafrannsóknastofnun svo hún geti sinnt sínu mikilvæga starfi og er nefnt hér vegna þess að hjá þjóð sem hefur svo mikinn hag af því að sjávarútvegur gangi vel mega rannsóknir Hafrannsóknastofnunar og annarra ekki líða fyrir fjárskort. Við getum ekki unað við það, eins og hér hefur komið fram, að þetta stóra og mikla loðnurannsóknaverkefni í Norðurhöfum sitji á hakanum vegna fjárskorts, ég tala ekki um þegar ástand sjávar er þannig að sjórinn hefur hlýnað mjög og margir óttast að loðnan fari mjög langt út frá landinu í leit að kaldari sjó. Þá getum við ekki fylgst með henni og séð hvað er að gerast. Vonandi verður það ekki þannig að væntanleg loðnuvertíð, vetrarvertíð, taki mið af hitastigi sjávar.

Líkt og fjárskortur Hafrannsóknastofnunar vegna niðurskurðar á fjárlögum, kom það líka, virðulegur forseti, fram á síðasta fundi hv. sjútvn. að Fiskistofa, sem hefur mikilvægu hlutverki að gegna við eftirlit með veiðunum, líður líka fyrir það að vera skorin niður í fjárlagabeiðnum. Þau gögn fengum við hins vegar á þessum fundi og ber að þakka það. Eins og fram kom ber forstöðumönnum stofnana að afhenda þingnefndum þau gögn sem þær þurfa á að halda við þau mál sem er verið að ræða, í þessu tilviki fjárlög fyrir árið 2004. Þar kom fram að Fiskistofa hafði óskað eftir 18 millj. kr. til þess að geta gert út hraðskreiðan bát við eftirlit á veiðum smábáta. Það verður ekki hægt vegna þess að stofnunin fékk ekki þá heimild og mun ekki fá þá heimild samkvæmt fjárlögum.

Jafnframt kom það fram, sem er kannski miklu alvarlegra mál, að Fiskistofa er að keyra sitt tölvuprógramm, upplýsingakerfi um afla, á mjög gömlu tölvukerfi, að mig minnir 13 ára gömlu tölvukerfi sem aðeins einn maður, þá mikið séní, sér um og kann á. Menn eru orðnir skíthræddir um bilanir í þessu kerfi og þeim mikla gagnagrunni sem þar er. En það vantar 75 millj. kr. til þess að hefja störf við að skrifa nýtt kerfi. Svo virðist sem það hafi heldur ekki náð í gegn vegna þess að í gögnum Fiskistofu, sem ég vitnaði til áðan, virðulegur forseti, kemur fram að fjárlagabeiðnir Fiskistofu hafa verið skornar mjög niður og ekki heldur fallist á hækkun á veiðieftirlitsgjaldi.

Það er ákaflega mikilvægt, virðulegi forseti, að þetta komi fram, vegna þess, eins og ég sagði áðan, að þeir peningar sem Hafrannsóknastofnun hefur áskotnast á síðasta ári og það sem liðið er af þessu ári eru miklir peningar, tæpar 225 millj. kr., og hafa gert gæfumuninn við rekstur stofnunarinnar á þessu ári og mér skilst líka á síðasta ári. Ég mun kannski geta komið að því betur á eftir vegna þess að ég vil endilega, áður en þessari umræðu lýkur, fá þessi gögn í hendurnar þannig að ég sé ekki eingöngu að styðjast við mína minnispunkta.

Ég endurtek það í lokin, virðulegi forseti, að þau frumvörp sem hæstv. sjútvrh. hefur fylgt úr hlaði eru ekki frumvörp sem þarf að vera mikill ágreiningur um. Þessi frumvörp, sem væntanlega verða samþykkt, geta hins vegar haft mikil áhrif á rekstur Hafrannsóknastofnunar ef hún mun fá minna úr þessum sjóði, en fær allt í dag. Ég tek líka undir það að þessi sjóður verði notaður til annarra þátta en að styðja eingöngu við Hafrannsóknastofnun. Það má segja að það sé ekki eðlilegt að ein stofnun ríkisins skuli þurfa að sæta því að fá úthlutað úr svona sjóði í staðinn fyrir að fá á fjárlögum til þeirra mikilvægu verkefna sem hún þarf að sinna. Aðrir geti þá sótt í þennan sjóð til nýsköpunar í sjávarútvegi og öðru, ég ætla ekki að lengja umræðuna með umræðu um kræklingaeldi. Það hefur verið fjallað töluvert um litla styrki til þeirrar frumkvöðlastarfsemi á nokkrum stöðum á landinu við kræklingaeldi. Ákaflega lítið hefur fengist úr sjóðum til þeirrar starfsemi og lítill stuðningur við það starf sem þar er unnið, sem mun ekki skila viðkomandi aðilum neinum arði eða almennilegum tekjum fyrr en eftir töluvert langan tíma. Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að lengja umræðuna núna með því að ræða um gjöld sem lögð eru á þessa grein á hennar sokkabandsárum, ef svo má að orði komast, en það eru töluvert há gjöld. Það kom í ljós á fundi sjútvn. í gær að sennilega hefur á síðustu árum, bara síðustu missirum, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins verið að stórhækka gjaldskrána sína til þess að fá meira fé inn, sem leggst á þessi sprotafyrirtæki í sjávarútvegi.